Innlent

Faðir Dags gagn­rýnir Krist­rúnu: „Dag­ur veg­inn og met­inn og létt­væg­ur fund­inn“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Eggerti finnst undarlegt hvað Dagur sé léttvægur fundinn af formanninum þrátt fyrir gífurlega pólitíska reynslu, yfirburðarþekkingu og einstaka hæfileika til að vinna með fólki.
Eggerti finnst undarlegt hvað Dagur sé léttvægur fundinn af formanninum þrátt fyrir gífurlega pólitíska reynslu, yfirburðarþekkingu og einstaka hæfileika til að vinna með fólki. Háskóli Íslands

Eggert Gunnarsson, dýralæknir og faðir Dags B. Eggertssonar, hefur látið í ljós óánægju sína með orð Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, þess efnis að Dagur sé aukaleikari og ekki ráðherraefni flokksins.

Einkaskilaboð Kristrúnar til Grafarvogsbúa nokkurs, sem viðkomandi birti síðan í opnum Facebook-hópi, vöktu töluverða athygli um helgina en þar sagði hún að Dagur væri aukaleikari, myndi ekki koma til með að vera ráðherra og að viðkomandi gæti strikað yfir hann á kjörseðlinum.

Kristrún sagði í samtali við Vísi að það væri eðlilegt að fólk sem vilji kjósa Samfylkinguna hafi mismunandi skoðanir á einstaka frambjóðendum. Dagur mætti nokkrum dögum síðar í Silfrið þar sem hann sagði skilaboðin vera óheppileg en hann hafi rætt við Kristrúnu um málið og það væri komið í baksýnisspegilinn.

„Hverjir eru þessir snillingar“

Faðir Dags tók málinu ekki af sömu yfirvegun og gagnrýndi orð formannsins í færslu sem birtist á Facebook í gær. 

„Kristrún hef­ur látið að því liggja að komi til þess að Sam­fylk­ing­in myndi rík­is­stjórn verði Dag­ur B. Eggerts­son ekki ráðherra­efni enda sé hann hann [að] feta sig á nýj­um slóðum. Fyr­ir í fleti séu leiðtog­ar flokks­ins í hinum ýmsu kjör­dæm­um. Og hverj­ir eru svo þess­ir snill­ing­ar,“ skrifar Eggert hæðnislega. 

„Fyr­ir utan hana sjálfa eru það: Jó­hann Páll Jó­hanns­son, alþing­ismaður til þriggja ára; Arna Lára Jóns­dótt­ir, bæj­ar­stjóri Ísa­fjarðarbæj­ar og rit­ari Sam­fylk­ing­ar­inn­ar; Logi Ein­ars­son, alþing­ismaður og frv. formaður; Víðir Reyn­is­son, yf­ir­lög­regluþjónn; Alma Möller, land­lækn­ir.

Allt að sjálf­sögðu hið vænsta fólk. Á móti þessu fólki er Dag­ur veg­inn og met­inn og létt­væg­ur fund­inn þrátt fyr­ir gíf­ur­lega pólitíska reynslu, yf­ir­burða þekk­ingu og síðast en ekki síst ein­staka hæfi­leika til þess að vinna með fólki. Já, það er margt skrítið í …“ skrifar hann síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×