Fótbolti

Eins og að halda Óskars­verð­launin með enga konu í salnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emma Hayes með son sinn Harry eftir sigurleik á móti Íslandi í vináttulandsleik í Nashville.
Emma Hayes með son sinn Harry eftir sigurleik á móti Íslandi í vináttulandsleik í Nashville. Getty/Brad Smith

Emma Hayes, þjálfari bandaríska landsliðsins og nýkjörin þjálfari ársins á verðlaunahátíð Gullhnattarins, Ballon d'Or, hikaði ekkert að gagnrýna hátíðina og þá sérstaklega tímasetninguna.

Hayes fékk vissulega verðlaunin í ár en hún var ekki á staðnum eins og margir þjálfarar og leikmenn úr kvennaboltanum. Ástæðan er að hátíðin er haldið í miðjum landsliðsglugga hjá kvenfólkinu.

Það er því ekki mögulegt fyrir flestar bestu knattspyrnukonur heims að mæta. Sú besta, Aitana Bonmatí, fékk frí frá landsleikjunum Spánar og var því mætt til Parísar. Hún var ein af undantekningunum því það voru fáar knattspyrnukonur í salnum.

„Þetta er bara eins og að halda Óskarsverðlaunin eða Golden Globe hátíðina með enga konu í salnum,“ sagði Emma Hayes. ESPN segir frá.

„Þetta á ekki að geta gerst en eins og með margt þessu tengt þá eru menn ekkert að pæla í þessu fyrr en eftir á,“ sagði Hayes.

Hayes segir það vissulega heiður fyrir sig að fá verðlaunin og hún er ánægð með að vera með landsliðinu sínu þar sem bíður leikur við Argentínu. Bandaríska landsliðið vann Ísland tvisvar í þessum glugga en liðið spilar þrjá leiki í honum.

Hayes segir að konurnar eigi skilið að fá að njóta uppskerunnar fyrir góða frammistöðu á árinu.

„Fyrir þessa leikmenn og þjálfara þá er þetta staður og stund til að vera metin að verðleikum. Þetta fyrirkomulag er því vonbrigði,“ sagði Hayes.

„Ég ræddi þetta við skipuleggjendurna og þeir sögðu mér að þetta væri eitthvað sem þeir ætluðu að breyta í framtíðinni. Við skulum vona að það sé satt,“ sagði Hayes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×