Fótbolti

Yamal besti ungi leik­maður heims

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Frábær þrátt fyrir ungan aldur.
Frábær þrátt fyrir ungan aldur. Gongora/Getty Images

Evrópumeistarinn Lamine Yamal vann í kvöld Kopa-verðlaunin sem eru hluti af verðlaunahátíðinni þegar Gullboltinn er tilkynntur. Verðlaunin hlýtur besti leikmaður heims undir 21 árs aldri.

Hinn 17 ára gamli Yamal hefur verið í lykilhlutverki hjá Barcelona undanfarna mánuði og var sömuleiðis frábær þegar Spánn stóð uppi sem sigurvegari á Evrópumóti karla í knattspyrnu síðasta sumar.

Á yfirstandandi leiktíð hefur Yamal skorað 5 mörk og gefið 6 stoðsendingar í 11 leikjum í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni. Í Meistaradeild Evrópu hefur hann skorað eitt mark og lagt upp annað.

Yamal er sá yngsti í sögunni til að hljóta Kopa-verðlaunin. Hann er jafnframt yngsti leikmaður í sögu spænska landsliðsins, yngstur til að skora fyrir A-landslið Spánar, yngstur til að vinna EM og nú síðast yngsti leikmaðurinn til að skora í hinum sögufræga El Clásico, viðureign Barcelona og Real Madríd.

Arda Güler (Real Madríd og Tyrkland) var í 2. sæti á meðan Kobbie Mainoo (Manchester United og England) var í 3. sæti. Savinho (Brasilía og Manchester City) kom þar á eftir og 17 ára gamli miðvörðurinn Pau Cubarsí (Barcelona og Spánn) var í 5. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×