Mørk greindi frá óléttunni á Instagram-síðu sinni þar sem hún og Tollbrying eru með sónarmynd ásamt því að klæðast derhúfum þar sem á stendur „Mamma“ og „Pabbi.“
Þórir Hergeirsson stýrir Noregi í síðasta sinn á Evrópumótinu sem fram fer í desember. Það var vitað að Noregur yrði án Mørk á mótinu þar sem hún hefur verið að glíma við meiðsli frá því að Ólympíuleikunum lauk í ágúst.
Þar áður hafði hún glímd við erfið meiðsli á HM á síðasta ári en sagði Þóri hreinlega ekki hversu alvarleg meiðslin væru.
Verðandi arftaki Þóris, Ole Gustav Gjekstad, hefur þegar talað við Mørk og óskar henni innilega til hamingju. Hann vonast þó að skórnir séu ekki á leiðinni upp á hillu.
„Það er fullt af leikmönnum sem koma sterkari til baka eftir að hafa verið óléttar. Við sjáum það í landsliðinu. Þetta eru gleðifréttir og við erum ánægð fyrir hennar hönd. Ég vona að við sjáum hana í bæði búning félagsliðs hennar sem og Noregs á nýjan leik en nú þarf hún að einbeita sér að öðrum hlutum,“ sagði Gjekstad í viðtali við VG.
Mørk spilar í dag með Esbjerg í Danmörku og hefur gert frá árinu 2022. Hún hefur einnig spilað í Rúmeníu, Ungverjalandi og heimalandinu. Hún hefur unnið Meistaradeild Evrópu alls sex sinnum, fjöldan allan af landstitlum ásamt því að verða heimsmeistari tvívegis með Noregi og fimm sinnum Evrópumeistari.