Innlent

„Getum við verið sam­mála um að vera ó­sam­mála?“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Ingi Sveinsson, sem heldur hér bók fyrir andlit sitt, ræðir við Björgvin Jónsson verjanda sinn.
Jón Ingi Sveinsson, sem heldur hér bók fyrir andlit sitt, ræðir við Björgvin Jónsson verjanda sinn. Vísir/vilhelm

„Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja með þetta. Ég allavega neita sök í þessu og hef ekki vitneskju um þessi fíkniefni,“ sagði Jón Ingi Sveinsson, grunaður höfuðpaur í umfangsmiku fíkniefnamáli, í upphafi aðalmeðferðar málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Jón Ingi segist ekki kannast við ummæli sem eru höfð eftir honum í lögregluskýrslu. Jón og verjandi hans vilja meina að þau byggi á hljóðupptökum sem séu ólöglegar.

Nokkrir breyttu um afstöðu

Aðalmeðferð stóra fíkniefnamálsins hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Málið hefur verið kennt við Sólheimajökul sem var nafn á spjalli fólks á samskiptaforritinu Signal. Efni voru flutt til landsins í pottum um borð í skemmtiferðaskipum. Þess má þó geta að meint fíkniefnalagabrot eru sögð vera talsvert umfangsmeiri en þau sem vörðuðu innflutning með skipinu.

Sakborningar málsins voru upphaflega átján en þrír ákærðu hafa játað sök. Mál þeirra verða tekin fyrir sérstaklega. Síðan breytti einn sakborningurinn afstöðu sinni og játaði sök við upphaf þinghaldsins, og annar breytti lítillega afstöðu sinni varðandi einn ákærulið.

Í þinghaldinu í morgun spurði Karl Ingi Vilbergsson saksóknari Jón Inga út í efni lögregluskýrslu, sem byggði meðal annars á hljóðritunum. Björgvin Jónsson, verjandi Jóns, sagði lögregluna ekki hafa haft heimild fyrir hljóðritun erlendis.

„Tönnin“

„Þetta eru ólögleg gögn. Þetta gæti þess vegna verið búið til með aðstoð gervigreindar,“ sagði Björgvin. Hann krafðist þess að algjörlega yrði litið fram hjá hljóðritununum. Aðrir verjendur í málinu tóku undir bókunina.

Í þessum samtölum sem voru reifuð í lögregluskýrslunni var fjallað um skipulagningu fíkniefnainnflutnings, innheimtingu fíkniefnaskuldar, burðardýr og „Tönnina“ sem gera má ráð fyrir að eigi að vera Sverrir Þór Gunnarsson, betur þekktur sem Sveddi Tönn.

„Ég ætla ekki að svara fyrir þetta. Ég ætla ekki að ræða ólöglegar upptökur,“ sagði Jón Ingi í aðalmeðferðinni í morgun. Karl Ingi spurði hann margra spurninga varðandi gögn lögreglu, en felst svör Jóns voru á þessa leið.

„Lögreglan verður að fara að lögum líka,“ sagði Jón.

Pinocchio, Gringo en ekki Caligula

Jón Ingi hélt því einnig fram að fjöldi spurninga Karls Inga vörðuðu ekki þau brot sem hann væri ákærður fyrir. Karl Ingi sagðist nú vera ósammála því.

„Getum við verið sammála um að vera ósammála?“ spurði Jón Ingi.

Jón Ingi var spurður út í hina sakborninga málsins. Hann sagðist þekkja þá flesta, en ekki alla. Í flestum tilfellum er um að ræða vini. Af upprunalegu sakborningunum átján voru þrettán karlar og fimm konur. Flestir sakborningana voru á fertugs- og fimmtugsaldri, en sá yngsti er 28 ára.

Jón Ingi kannast við að hafa notað samskiptaforritið Signal, og verið þar undir nafninu Pinocchio, og Gringo, en ekki Caligula. Pinocchio er ítalska nafn spítustráksins Gosa, Gringo er spænskt orð sem er notað yfir útlending og Caligula var þriðji keisari Rómarveldis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×