Handbolti

Vals­menn náðu að jafna í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson var stoðsendingahæstur í Valsliðinu þrátt fyrir að fara aldrei í sókn.
Björgvin Páll Gústavsson var stoðsendingahæstur í Valsliðinu þrátt fyrir að fara aldrei í sókn. Vísir/Anton Brink

Fram og Valur gerðu 31-31 jafntefli í Reykjavíkurslag í Olís deild karla í handbolta í kvöld.

Framarar misstu niður þriggja marka forskot á síðustu fimm mínútum leiksins en Valsliðið skoraði þrjú síðustu mörk leiksins.

Valsmenn voru búnir að vinna fjóra deildarleiki í röð en náðu í stig í lokin og héldu um leið Fram fyrir neðan sig í töflunni. Valsmenn eru með tíu stig í þriðja sætinu, einu stigi á undan Fram.

Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoraði jöfnunarmark Valsliðsins en hann skoraði alls tíu mörk í leiknum.

Björgvin Páll Gústavsson varði líka vel á lokakaflanum auk þess að gefa fjórar stoðsendingar fram í hraðaupphlaup. Markvörðurinn var með flestar stoðsendingar í sínu liði.

Ísak Gústafsson skoraði fimm mörk fyrir Val og þeir Magnús Óli Magnússon og Bjarni í Selvindi voru með fjögur mörk hvor.

Reynir Þór Stefánsson skoraði sjö mörk fyrir Fram en Marel Baldvinsson var með sex mörk úr sex skotum.

Framarar komust þremur mörkum yfir snemma leiks, 6-3, en Valsmenn jöfnuðu og komust sjálfir yfir. Valsliðið var síðan einu marki yfir í hálfleik, 17-16. Fram tók frumkvæðið í seinni hálfleiknum og var í góðum málum þegar allt hrundi á móti reynslumiklum Valsmönnum í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×