Upp­gjörið: Ís­land - Pól­land 30-24 | Frá­bærar ís­lenskar stelpur lofa góðu fyrir EM

Hinrik Wöhler skrifar
Íslensku stelpurnar áttu ekki í vandræðum með Pólverja í kvöld.
Íslensku stelpurnar áttu ekki í vandræðum með Pólverja í kvöld. Vísir/Viktor Freyr

Ísland og Pólland áttust við í Úlfarsárdal í kvöld í fyrri vináttuleik liðanna en bæði lið hefja leik á Evrópumótinu í handbolta kvenna eftir rúman mánuð. Íslenska liðið vann frækinn sex marka sigur, 30-24, eftir að hafa leitt allan leikinn.

Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti en þær komust í 6-3 eftir rétt rúmlega tíu mínútna leik. Þá tók þjálfari gestanna, hinn norski Arne Senstad, leikhlé og reyndi að bæta leik pólska liðsins.

Allt kom fyrir ekki og íslensku stelpurnar héldu áfram að spila góða vörn og skilvirkan sóknarleik. Pólska liðið átti fá svör í sókninni en íslenska varnarlínan lokaði virkilega vel á miðsvæðið þar sem helsta ógn pólska liðsins var.

Elín Klara Þorkelsdóttir sækir að marki en hún skoraði sjö mörk í kvöld.Vísir/Viktor Freyr

Um miðbik fyrri hálfleiks var staðan orðin 9-4 og Pólverjar tóku annað leikhlé. Líkt og áður héldu íslenska liðið áfram að bæta í með mörkum úr hraðaupphlaupum og vel útfærðum sóknum.

Emilia Galinska hlaut réttilega rautt spjald undir lok fyrri hálfleiks þegar hún tók í hönd Elínar Rósu Magnúsdóttur í þann mund þegar Elín ætlaði að skjóta.

Íslenska liðið átti stórbrotin fyrri hálfleik og var staðan 18-9 í hálfleik. Margir bjuggust við að pólska liðið myndi vera sterkari aðilinn í kvöld en íslensku stelpurnar voru sannarlega á öðru máli.

Liðin skiptust á að skora í upphafi síðari hálfleiks en pólska liðið náði að lesa íslenska sóknarleikinn aðeins betur.

Það heyrðist vel í þessum ágæta kvartett í Úlfarsárdal í kvöld.Vísir/Viktor Freyr

Um miðbik síðari hálfleiks var staðan orðin ansi góð fyrir íslenska liðið en þær leiddu með tíu mörkum. Hins vegar byrjaði sóknarleikur Íslands að hiksta og pólsku stelpurnar gengu á lagið í sókninni.

Pólska liðið skoraði sjö mörk í röð á skömmum tíma og fór staðan úr 24-14 í 24-21. Arnar Pétursson, þjálfari íslenska landsliðsins, tók þá sitt fyrsta leikhlé og það virðist hafa hjálpað liðinu.

Íslenska liðið náði loks að slíta sig frá gestunum að nýju og endaði leikurinn með frábærum sex marka sigri, 30-24, og fagnaði liðið fyrir framan íslensku stuðningsmennina í lok leiks.

Atvik leiksins

Eftir virkilega erfiðan kafla í síðari hálfleik þegar gestirnir skoruðu sjö mörk í röð kom mark frá nýliðanum í íslenska landsliðinu. Dana Björg Guðmundsdóttir, leikmaður Volda í Noregi, skoraði sitt fyrsta mark fyrir Ísland við mikinn fögnuð viðstaddra og batt enda á skammvinna einstefnu Pólverja.

Stjörnur og skúrkar

Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst með sjö mörk í leiknum í kvöld og oft á tíðum sprengdi upp pólsku vörnina með hröðum gabbhreyfingum.

Varnarleikur Íslands var til fyrirmyndar í leiknum í kvöld, sérstaklega í fyrri hálfleik. Steinunn Björnsdóttir og Andrea Jacobsen voru harðar í horn að taka í vörninni ásamt flest öllum leikmönnum íslenska liðsins.

Dómarar

Þrátt fyrir að leikurinn í kvöld væri landsleikur voru íslenskir dómarar í kvöld. Hið reynslumikla dómarapar, Jónas Elíasson og Magnús Kári Jónsson, sáu um dómgæsluna í kvöld.

Þeir negldu stóra ákvörðun undir lok fyrri hálfleiks þegar það var farið í skothöndina á Elínu Rósu í þann mund þegar hún ætlaði að skjóta og gáfu réttilega rautt spjald á Emiliu Galinska.

Stemning og umgjörð

Það var ljómandi fín stemning í Lambhagahöllinni og setið þokkalega þétt beggja megin vallarins. Það heyrðist vel í stuðningsmönnum beggja landa en það var talsvert af pólskum stuðningsmönnum á vellinum í kvöld og settu þeir skemmtilegan svip á stemninguna í kvöld.

Viðtöl

Þórey Rósa: „Frábært lið sem við erum að spila við“

Þórey Rósa Stefánsdóttir átti fínan leik í íslensku treyjunni í kvöld og skoraði fjögur mörk úr hægra horninu. Það má segja að frammistaða liðsins hafi komið henni skemmtilega á óvart.

„Þetta var framar því sem ég bjóst við en ég er rosalega ánægð og stolt af okkur. Bæði að hafa átt svona frábæran fyrri hálfleik og síðan haldið þetta út og unnið leikinn sannfærandi,“ sagði Þórey.

Þórey Rósa Stefánsdóttir var í eldlínunni í kvöld.EPA-EFE/Beate Oma

Þar sem skilaði sigrinum var öflugur varnarleikur og markvarsla samkvæmt Þóreyju.

„Góður varnarleikur og við keyrðum í bakið á þeim. Hafdís [Renötudóttir] var frábær í markinu og í raunnini gekk mjög mikið upp hjá okkur.“

Íslenska liðið lenti í mótspyrnu um miðbik síðari hálfleiks og viðurkennir Þórey að það hafi farið aðeins um hana.

„Örlítið þarna um miðbik síðari hálfleiks.“

„Það má segja að þær hafa komið værukærar til leiks og náðu að þétta raðirnar í hálfleik og sýndu sitt réttara andlit í seinni. Þetta er frábært lið sem við erum að spila við og leikmenn í góðum liðum. Þær bættu í og við kannski áttum í erfiðleikum að halda út. Hrikalega ánægð með að klára þetta,“ sagði Þórey.

Það er skammt stórra högga á milli og er annar leikur milli liðanna á morgun á Selfossi. Þórey er full tilhlökkunar og vonast eftir góðri stemningu á Selfossi.

„Vonandi áframhald af þessu í dag. Það verður klárlega erfiður leikur á morgun og við hlökkum til að fá fulla Set-höllina á Selfossi, það verður stuð og stemning.“

Þórey varð fyrir smávægilegum meiðslum á læri í leiknum í kvöld og er óviss hvort hún verði með í leiknum á morgun.

„Það verður að koma í ljós. Ef ég mögulega get þá já en þetta var ansi hart, hné í læri, og þetta verður bara að koma í ljós,“ sagði Þórey að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira