Körfubolti

Grinda­vík lagði ný­liða Hamars/Þórs með 46 stigum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Grindavík vann góðan sigur í kvöld.
Grindavík vann góðan sigur í kvöld. Vísir/Diego

Það verður seint sagt að leikur Hamars/Þórs og Grindavíkur í 4. umferð Bónus-deildar kvenna í körfubolta fari í sögubækurnar fyrir spennustig. Gestirnir í Grindavík unnu 46 stiga sigur, lokatölur 51-97.

Það var ljóst strax eftir 1. leikhluta í hvað stefndi en Grindavík hafði þá skorað 24 stig gegn níu stigum heimaliðsins. Vissulega skánaði sóknarleikur Hamars/Þórs eftir því sem leið á leikinn en því miður átti liðið engin svör við sóknarleik gestanna og því fór sem fór.

Abby Claire Beeman gerði hvað hún gati í liði Hamars/Þórs en hún skoraði 20 stig og tók sex fráköst. Anna Soffía Lárusdóttir kom þar á eftir með átta stig og fimm fráköst.

Alexis Morris var stigahæst í liði Grindavíkur með 21 stig ásamt því að gefa sjö stoðsendingar og taka fimm fráköst. Hulda Björk Ólafsdóttir kom þar á eftir með 17 stig og fimm fráköst. Isabella Ósk Sigurðardóttir spilaði aðeins 19 mínútur en skoraði samt sem áður 10 stig og reif niður 14 fráköst.

Isabella Ósk nýtti mínútur sínar vel.Vísir/Diego

Þegar fjórar umferðir eru búnar er staðan í deildinni mjög jöfn en þrátt fyrir risasigur Grindavíkur í kvöld hafa bæði lið unnið tvo leiki og tapað jafn mörgum. Aðeins Haukar eru með þrjá sigra og aðeins Aþena hefur unnið færri en tvo leiki eða einn til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×