Innlent

Skil­orðs­bundið fangelsi fyrir að keyra á barn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Dómurinn féll í Héraðsdómi Norðurlands eystra.
Dómurinn féll í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Vísir/Vilhelm

Kona hefur hlotið þrjátíu daga fangelsisdóm, skilorðsbundinn til tveggja ára, í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir að aka á barn þann 7. ágúst 2023.

Hún var ákærð fyrir að líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot. Í ákæru segir að hún hafi verið að aka bíl sínum án nægilegrar varúðar og aðgæslu og of hratt miðað við aðstæður. Fram kemur að þegar hún hafi komið að gangbraut hafi hún ekið á barn sem var að hjóla yfir götuna.

Fyrir vikið hlaut barnið viðbeinsbrot og hrufl og skrapsár víða um líkamann, sem og glóðurauga.

Konan játaði sök en hafnaði bótakröfu á hendur sér. Dómurinn ákvað því að kljúfa þann hluta málsins frá og verður hann tekinn fyrir sem einkamál.

Dómnum þótti ekki ástæða til að draga játningu konunnar í efa. Konan sem hafði hreinan sakaferil hlaut þrjátíu daga skilorðsbundinn dóm. Ákæruvaldið krafðist þess í fyrstu að hún yrði svipt ökuréttindum, en féll síðan frá því.

Henni er einnig gert að greiða 132 þúsund krónur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×