Þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í leik ÍA og Víkings skoraði varamaðurinn Breki Þór Hermannsson fyrir heimamenn. Markið var hins vegar dæmt af. Nánast í næstu sókn skoraði Danijel Dejan Djuric svo sigurmark Víkinga, 3-4.
Skagamenn voru æfir eftir leikinn enda eiga þeir ekki lengur möguleika á Evrópusæti eftir tapið. Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var ekki bara ósáttur við markið sem var dæmt af Skagamönnum heldur einnig að Erlendur Eiríksson hafi verið fjórði dómari á leiknum. Hann dæmdi umdeilda vítaspyrnu í leik ÍA og Víkings á Akranesi fyrr í sumar.
Stúkumenn fóru vel og vandlega yfir markið sem var dæmt af ÍA en fundu ekkert athugavert við það.
„Ég get bara ekki skilið hvað hann er að dæma á því það er engin hendi og alls ekkert brot á Hlyn,“ sagði Albert Ingason en Elías Ingi á að hafa sagt við Skagamenn að hann hafi dæmt markið af vegna brots Hlyns Sævars Jónssonar.
„Þetta eru bara dómaramistök. Ég er viss um að dómarinn sé búinn að kíkja á þetta og átta sig á að hann gerði mistök,“ sagði Lárus Orri Sigurðsson.
„Þetta eru leiðindamistök, slæm mistök og koma á mjög slæmum tíma í lok móts og skipta miklu máli fyrir úrslit þessa leiks. Það er leiðinlegt þegar svona gerist, þegar svona dómaramistök hafa svona mikil áhrif.“
Óskiljanleg mistök
Albert tók aftur við boltanum og sagðist ekkert skilja í Elíasi Inga.
„Þessi mistök pirra mig rosalega mikið. Af því að hann er bara að dæma á einhverjum líkindum þarna. Hann sér ekkert þarna. Ég er búinn að sjá þetta tuttugu sinnum og get ekki séð á hvað hann er að dæma. Fyrir mér eru þetta bara rándýr mistök, óskiljanleg mistök,“ sagði Albert.
„Ég er nokkuð viss um að ef Pétur Guðmundsson hefði verið eftirlitsmaður á þessum leik hefði hann látið Elías Inga blása eftir leik og ég er ekki svo viss um að hann hefði fengið keyra heim. Ég skil þetta ekki.“
Strákarnir héldu áfram að skoða atvikið en Guðmundur Benediktsson stóð á því fastar en fótunum að boltinn hefði farið í höndina á einhverjum inni í vítateignum. Erfitt var þó að sjá það.
Innslagið úr Stúkunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.