Innlent

Fimm þing­menn Sjálf­stæðis­flokk á út­leið

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru á útleið eftir fundi kjördæmaráða í dag.
Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru á útleið eftir fundi kjördæmaráða í dag.

Fimm þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum verða ekki á lista í næstu Alþingiskosningum. Um er að ræða fjóra karla og eina konu úr fjórum kjördæmum.

Það eru þau Jón Gunn­ars­son, Ásmund­ur Friðriks­son, Birg­ir Þór­ar­ins­son, Berglind Ósk Guðmundsdóttir og Teit­ur Björn Ein­ars­son.

Felldur af varaformanninum

Jón Gunnarsson settist á þing árið 2007 og hefur því verið þingmaður í sautján ár. 

Hann var samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2017, innanríkisráðherra í tvo mánuði 2021 til 2022 og dómsmálaráðherra í átján mánuði á síðasta kjörtimabili frá 2022 til 2023. 

Jón hefur ekki verið óumdeildur í störfum sínum og laut hann í lægra haldi fyr­ir Þór­dísi Kol­brúnu Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ur í baráttu um 2. sæti í Suðvest­ur­kjör­dæmi.

Tveir íhaldssamir í Suðurkjördæmi

Ingveld­ur Anna Sig­urðardótt­ir, lög­fræðing­ur og varaþingmaður, skákaði tveimur sitjandi þingmönnum, þeim Birgi Þórarinssyni og Ásmundi Friðrikssyni, í baráttunni um 3. sætið í Suðurkjördæmi.

Ásmund­ur Friðriks­son hef­ur verið þingmaður í Suður­kjör­dæmi frá ár­inu 2013 og hefur einna helst vakið athygli vegna ferða sinna um kjördæmið.

Birg­ir hef­ur verið á Alþingi frá ár­inu 2017, þar af lengst af fyrir Miðflokkinn. Hann var reyndar líka stuttlega varaþingmaður Framsóknarflokksins árin 2010 og 2012. Birgir var einn af þremur Miðflokksmönnum sem náðu inn á þing í síðustu kosningum en hann yfirgaf flokkinn skömmu eftir það og fór yfir í Sjálfstæðisflokkinn. 

Bæði Ásmundur og Birgir hafa vakið athygli vegna íhaldssamra skoðana sinna í útlendingamálum.

Sitjandi þingmenn á Norðurlandi detta út

Berglind Ósk Guðmundsdóttir hefur verið annar þingmaður Norðausturkjördæmis frá árinu 2021.

Jens Garðar Helgason, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Kaldbaki, hafði betur gegn Njáli Trausta Friðbertssyni, sitjandi oddvita Norðausturkjördæmis, í baráttu um oddvitasætið á fundi kjördæmaráðs.

Njáll Trausti hafði svo betur gegn öðrum frambjóðendum í baráttunni um annað sætið, þar á meðal Berglindi Ósk og ákvað hún að gefa ekki kost á sér í þriðja sætið.

Teit­ur Björn Ein­ars­son hefur verið varaþingmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá ár­inu 2016. Hann hefur verið það nokkuð slitrótt en verið samfleytt frá árinu 2023 þegar Haraldur Benediktsson baðst lausnar.

Teitur laut í lægra haldi fyr­ir Birni Bjarka Þor­steins­syni, sveit­ar­stjóra Dala­byggðar, í kosn­ingu um 2. sæti á lista Sjálf­stæðiflokks í Norðvest­ur­kjör­dæmi. Teitur hafði upprunalega sóst eftir oddvitasæti en dró framboð sitt til baka og var Ólafur Adolfsson, lyfsali á Akranesi og fyrrverandi oddviti flokksins þar í bæ, því sjálfkjörinn í fyrsta sæti listans.


Tengdar fréttir

Björn hafði betur gegn Teiti

Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri Dalabyggðar, skipar annað sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þetta varð ljóst á fundi kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×