Íslenski boltinn

„Ég reyndi að standa mig eins og í öllum öðrum leikjum“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Matthias Præst Nielsen verður leikmaður KR eftir viku en spilaði með Fylki í kvöld, gegn KR.
Matthias Præst Nielsen verður leikmaður KR eftir viku en spilaði með Fylki í kvöld, gegn KR. KR / FYLKIR

Matthias Præst Nielsen var í undarlegum aðstæðum í kvöld þegar hann lék með núverandi liði sínu Fylki, gegn framtíðarliði sínu KR. Matthias klæddi sig í treyju KR undir lok félagaskiptagluggans í sumar og skrifaði undir samning, sem tekur gildi þegar tímabilinu lýkur næstu helgi. Hann segir það hafa verið svolítið skrítið en reyndi að standa sig eins og í öllum öðrum leikjum.

„Við stóðum okkur ágætlega en þetta var erfitt eftir rauða spjaldið. Við áttum fínar skyndisóknir og gerðum vel í að halda þeim frá okkar marki, en þetta var bara erfitt, fáum rautt spjald á okkur og erum marki undir. Ekki mikið meira hægt að segja, þetta var bara erfitt“ sagði hann um leikinn.

Klæddist KR treyju fyrr í sumar

Þá færðist talið að félagaskiptunum en Matthias nálgaðist þennan leik eins og alla aðra.

„Já það var svolítið skrítið en þetta er bara eins og hver annar leikur. Við reyndum að vinna og ég reyndi að standa mig eins og í öllum öðrum leikjum,“ sagði Matthias og bætti við að hann hefur ekki verið í neinum samskiptum við KR síðan hann skrifaði undir í sumar.

„Að sjálfsögðu er ég spenntur að spila fyrir KR. En eftir tapið í dag er það ekki það sem ég er hugsa,“ sagði Matthias aðspurður um spennuna sem fylgir því að spila fyrir stórveldið.

Mikið spil á æfingum Fylkis

Fylkir er fallinn, undanfarnar vikur hafa því verið furðulegar hjá félaginu. Einnig er þjálfarinn, Rúnar Páll, í leikbanni og stýrir liðinu ekki í leikjum en sér um æfingar ennþá.

„Við reynum að halda í jákvæðnina, höfum gaman á æfingum og spilum mikið. Við erum auðvitað fallnir en reynum samt að vinna alla leiki og halda ákefðinni á æfingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×