Leikmenn liðanna voru mættir aftur út á völl til að hita upp fyrir seinni hálfleik, þegar lætin urðu.
Ljóst er að Kane og McCauley höfðu skipst á orðum í aðdragandanum, og eins og sjá má hér að neðan fór Kane svo inn á þann vallarhelming sem Egilsstaðabúar hituðu upp á, og að McCauley.
Þeir héldu svo áfram að skiptast á orðum áður en McCauley virtist lyfta fingri að andliti Kane sem þá virtist slá McCauley í andlitið.
Leikmenn beggja liða þustu þá að og var mönnum skiljanlega heitt í hamsi en ekki urðu þó frekari áflog.
Dómarar leiksins urðu ekki vitni að atvikinu og bæði Kane og McCauley fengu að klára leikinn. Það verður svo að koma í ljós hvort aganefnd KKÍ tekur málið fyrir og hvort að annar þeirra eða báðir séu á leið í leikbann.
Viðar Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var að minnsta kosti ekki í vafa um að taka þyrfti hart á hegðun Kane sem áður hefur orðið uppvís að ósæmilegri hegðun en hann var dæmdur í bann í upphafi úrslitakeppninnar á síðustu leiktíð, og hlaut einnig sekt í úrslitakeppninni.