Nafn Viktors birtist á lista yfir frambjóðendur í dag, en þegar þetta er ritað er Viktor einn í framboði í prófkjöri flokksins fyrir Norðausturkjördæmi ásamt Júlíusi Blómkvist Friðrikssyni.
Viktor vakti talsverða athygli í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í vor en hann hlaut 392 atkvæði, eða 0,18 prósent atkvæða.
Í samtali við fréttastofu segir Viktor að hann sé ættaður af Austurlandi og sé þar með lögheimili. Þá hafi hann mikið starfað á Vopnafirði og sé því með tengingar við kjördæmið. „Mér skilst líka að Píratar séu með lítið sem ekkert fylgi í kjördæminu. Nú er ég kominn með reynslu af því að vappa á milli og tala við fólk. Ég get því alveg tekið þetta að mér.“

Hann segir það að vissu leyti hafa verið skyndiákvörðun að bjóða sig fram til forseta og það eigi einnig við núna. „Þetta gerðist hratt og ég átti von á því að vera með ár eða svo til undirbúnings. Ár breyttist hins vegar í bara viku.“
Prófkjör Pírata hefst klukkan 16 á sunnudaginn og lýkur á þriðjudaginn klukkan 16. Framboðsfresturinn rennur úr um leið og kosning hefst.
Að neðan má sjá þegar Viktor mætti í þáttinn Af vængjum fram á Vísi.