Í salnum voru úkraínskir þingmenn, embættismenn og leiðtogar úkraínska hersins og leyniþjónusta.
„Saman með bandamönnum okkar, verðum við að breyta kringumstæðunum svo þetta stríð endi. Burtséð frá því hvað Pútín vill. Við verðum að breyta kringumstæðunum svo Rússland verði þvingað til friðar,“ sagði Selenskí, samkvæmt frétt Reuters.
Gangi áætlun hans eftir og fái Úkraínumenn stuðning bakhjarla sinna, sagði Selenskí að hægt væri að koma á friði fyrir lok næsta árs.
Áætlun Selenskís, sem hann hefur kynnt fyrir bakhjörlum Úkraínu á undanförnum vikum, snýst um fimm meginatriði. Einhverjir hlutar hennar eru þó leynilegir og ætlaði Selenskí að kynna þá frekar fyrir þingmönnum í einrúmi.
Eitt þeirra snýr að skilyrðislausu boði um inngöngu í NATO, jafnvel áður en stríðinu við Rússa lýkur. Úkraínumenn lögðu fram beiðni um inngöngu í september 2022 en hafa ekki fengið skýr svör enn sem komið er.
Selenskí sagði mögulega inngöngu í NATO vera framtíðarspurningu en að inngönguboð myndi sína Vladimír Pútín, forseta Rússlands, að hann hefði gert mistök með innrásinni í Úkraínu.
„Við erum lýðræðisþjóð og höfum sýnt að við getum varið sameiginlegan lífstíl okkar,“ sagði Selenskí meðal annars.
Our people, in Ukraine and abroad, never tire of saying “Glory to Ukraine,” and Ukraine never tires of answering, “Glory to the heroes.” But here, we hear less often the words “Ukraine must win.” For some, the word “victory” has become uncomfortable. Yet we understand—victory is…
— Volodymyr Zelenskyy / Володимир Зеленський (@ZelenskyyUa) October 16, 2024
Aðrir þættir áætlunarinnar fjalla um nauðsyn Úkraínumanna á því að byggja her sinn upp og þá sérstaklega að koma upp vopnum til að gera árásir í Rússlandi, bæði með eigin vopnum og vopnum frá bakhjörlum Úkraínu. Þá vill Selenskí að Vesturlönd hjálpi til við að skjóta niður rússneskar eldflaugar og dróna yfir Úkraínu.
Sjá einnig: Sprengdu upp vöruskemmu fulla af drónum
Þá fjallar áætlunin einnig um enduruppbyggingu í Úkraínu og aðkomu Vesturlanda að vörnum auðlinda landsins gegn árásum frá Rússlandi, og nýtingu þeirra. Er þar um að ræða auðlindir eins og úran, títaníum og liþíum, sem Úkraínumenn telja að geti hjálpað þeim að bæta efnahag ríkisins eftir stríðið.
Áætlunin snýr einnig að auknum viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi og auknu eftirliti með þeim þvingunum og refsiaðgerðum sem Rússar hafa þegar verið beittir.
Selenskí ítrekaði í ávarpi sínu að ef Pútín muni ná „geðsjúkum“ markmiðum sínum sýni það stjórnendum annarra alræðisríkja í heiminum að hernaður geti borgað sig.
Þá sagði forsetinn að Norður-Kórea hefði gengið til liðs við Rússa, ekki eingöngu með sendingu vopna og hergagna heldur einnig með fólki, fyrir verksmiðjur í Rússlandi og rússneska herinn.