FH beið algjört afhroð gegn þýska liðinu Gummersbach, lærisveinum Guðjóns Vals Sigurðssonar. Lokatölur 21-40 í Kaplakrika, í leik sem gestirnir áttu frá upphafi til enda.
Gestirnir voru ekki að tvínóna við hlutina í kvöld og sýndu strax mikinn styrk. FH-vörnin var í stökustu vandræðum og auðvelt reyndist að finna opnanir.

Það þótti Miro Schluroff sérstaklega, stökk yfir vörnina í skot eða fann sér leið í gegnum hana og skoraði átta sinnum bara í fyrri hálfleik.
Hálfleikstölur 12-19 en FH-ingar hefðu hæglega getað haft muninn minni. Klúðruðu þremur vítum og létu verja frá sér í fínum færum.

FH-ingar söknuðu vissulega lykilleikmanna, Aron Pálmarsson spilaði ekkert, Ólafur Gústafsson og Ágúst Birgisson komu sömuleiðis lítið við sögu. Þrír þrususkrokkar sem hefðu komið sér vel varnarlega.
Í seinni hálfleik lögðu gestirnir fótinn á bensíngjöfina og neituðu að lyfta honum sama hversu oft þeir keyrðu yfir FH-liðið.

Gjörsamlega völtuðu yfir heimamenn, fundu alltaf leið að marki sama hvert var leitað, brutust í gegnum gatasigtið sem FH-vörnin var margoft og voru undir lokin farnir að leika sér að hlutunum með sirkusmörkum og stælum.
FH-liðið var gjörsigrað og gat lítið gert annað en að bíða eftir því að leikurinn yrði flautaður af. Sjálfstraustið horfið og skellurinn algjör. Skelfileg leið til að halda upp á 95 ára afmæli félagsins.
Stjörnur og skúrkar
Miro Schluroff var stjarna leiksins, sem fyrr segir með átta mörk í fyrri hálfleik og endaði með tíu mörk úr tólf skotum, stórbrotinn leikmaður sem lék sér að varnarmönnum í kvöld.
Í liði FH var markmaðurinn Daníel Freyr sá eini sem átti að einhverju leiti ágætis leik. Varði fimmtán skot, mörg hver úr dauðafærum þar sem vörnin var galopin.
Skúrkur kvöldsins er lið FH, fyrir að veita áhorfendum jafn ótrúlega óspennandi leik. Liðið óralangt frá sínu besta og hefði mátt skemmta áhorfendum í allavega smástund.
Stemning og umgjörð
Umgjörðin til fyrirmyndar í Kaplakrika, öllu tjaldað til fyrir tvöföldu Evrópuveisluna og áhorfendur undu sér vel. Atriði fyrir leik, ljósasýning og mikil stemning, sem minnkaði þó eðlilega þegar líða fór á leikinn.
Mikið hrós líka á skipulagið og framkvæmdina, mjög knappur tími milli leikjanna en samhæfðar aðgerðir sjálfboðaliða sáu til þess að allt fór fram eins og það átti.
Dómarar
Ungverjarnir Péter Horváth og Balázs Marton héldu um flauturnar í kvöld og fannst gaman að blása í þær. Lítið flæði og fullt af tveggja mínútna brottvísunum.
Viðtöl
„Við erum klárlega betra liðið og sýndum það“

„Ótrúlega fagmannleg frammistaða. Ég veit ekki hvort tuttugu mörk sé gæðamunurinn á liðinu en við erum klárlega betra liðið og sýndum það. Hættum aldrei og tókum aldrei fótinn af bensíngjöfinni,“ sagði Elliði Snær Viðarsson, leikmaður Gummersbach, fljótlega eftir leik.
Hann stóð umkringdur heilum helling af íslenskum Gummersbach aðdáendum, sem mættu í Kaplakrika til að styðja liðið og fögnuðu dátt eftir leik.
„Já það er búið að safnast ótrúlega stór hópur af bæði Vestmannaeyingum og Íslendingum sem styðja Gummersbach. Það er ótrúlega gaman að fá að taka þátt í þessu verkefni á Íslandi, er bara frábært. Búið að vera skemmtilegur dagur og ótrúlega mikið af fólki sem fékk að sjá flotta handboltaveislu.“

Liðið hefur líka notið sín vel síðustu daga á Íslandi, fór í sund á Seltjarnarnesi og fékk sér ís. Strax í nótt er förinni heitið aftur til Þýskalands.
„Við komum á sunnudaginn og erum búnir að hafa smá tíma hérna. Sýna útlendingunum landið og svona en við fljúgum út í nótt, það er nóg að gera. Frí á morgun, æfing á fimmtudag og leikur á föstudag, það er ekkert annað, bara næsta verkefni!“ sagði Elliði og dreif sig í sturtu svo hann yrði ekki seinn í næturflugið.