Innlent

Mót­mælendur unnu spell­virki á utan­ríkis­ráðu­neytinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Inngangur utanríkisráðuneytisins var útataður í málningu og mótmælaspjöld voru skilin þar eftir á mótmælum stuðningsfólks Palestínu í morgun.
Inngangur utanríkisráðuneytisins var útataður í málningu og mótmælaspjöld voru skilin þar eftir á mótmælum stuðningsfólks Palestínu í morgun. Vísir/Vilhelm

Málningu var slett á inngang og stétt fyrir utan utanríkisráðuneytið við Austurbakka á mótmælum Félagsins Íslands-Palestínu í morgun. Einn mótmælandi var handtekinn fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.

Boðað var til skyndimótmæla fyrir utan ráðuneytið á Facebook-síðu Félagsins Íslands-Palestínu í gær. Þar kom fram að krafist yrði þess að stjórnmálasambandi yrði slitið við Ísrael og að Ísland setti viðskiptaþvinganir á landið vegna ástandsins á Gasa.

Ægir Þór Eysteinsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, staðfestir að mótmæli hafi átt sér stað við ráðuneytið um klukkan níu í morgun. Hann vísaði á lögregluna um frekari upplýsingar.

„Það kom hópur þarna að utanríkisráðuneytinu og henti einhverjum rauðum lit á húsið, væntanlega matarlit,“ segir Kristján Helgi Þráinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Mótmælendur með palestínska fána fryir utan utanríkisráðuneytið á Austurbakkanum í Reykjavík í morgun, þriðjudaginn 15. október 2024.Vísir/Vilhelm

Mótmælandinn sem var handtekinn hafði klifrað upp á þakkant og neitaði að hlýða lögreglumönnum á vettvangi. Kristján Helgi segir aðlögreglumenn hafi klifrað upp og sótt hann. Mótmælandinn var svo fluttur á lögreglustöð.

Enginn var handtekinn vegna eignarspjallanna á ráðuneytinu. Kristján Helgi segir það til skoðunar hjá lögreglunni sem þurfi nú að leggjast yfir upptökur úr öryggismyndavélum.

Lögreglumenn við utanríkisráðuneytið þar sem mótmælendur skvettu málningu á inngang, rúður og stétt í morgun.Vísir/Vilhelm

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×