Erlent

Verð­launaðir fyrir rann­sóknir á á­hrifum stofnana á auð­legð þjóða

Kjartan Kjartansson skrifar
Fulltrúar Nóbelsnefndarinnar undir glæru með myndum af verðlaunahöfunum þremur í hagfræði árið 2024.
Fulltrúar Nóbelsnefndarinnar undir glæru með myndum af verðlaunahöfunum þremur í hagfræði árið 2024. AP/Christine Olsson/TT News Agency

Þrír hagfræðingar deila Nóbelsverðlaunum í hagfræði fyrir rannsóknir sem sýna hvaða þýðingu stofnanir samfélagsins hafa fyrir velgengni þess. Rannsóknir þeirra eru sagðar hafa varpað ljósi á hvers vegna sumum þjóðum vegnar vel en öðrum illa.

Þeir Daron Acemoglu og Simon Johnson frá Tæknisháskóla Massachusetts (MIT) hlutu Nóbelsverðlaunin ásamt James A. Robinson frá Háskólanum í Chicago í Bandaríkjunum. Í rökstuðningi fyrir valinu segir að rannsóknir þremenninganna skýri hvers vegna ríki þar sem réttarríkið stendur höllum fæti og stofnanir eru veikar ná ekki að vaxa og dafna. Rannsóknir þeirra sýni ennfremur hvaða áhrif stofnanir samfélagsins hafi á velgengni þjóða.

Þeir Acemoglu og Robinson skrifuðu saman bókina „Why Nations Fail: The Origins of Power, Prosperity and Poverty“ árið 2012. Í henni færðu þeir rök fyrir því að manngerð vandamál væru ástæða þess að sum ríki festust í fátæktargildru.

Tóku þeir sem dæmi tvær landamæraborgir hvor sínu megin við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó sem deila sama landslagi, loftslagi og að stórum hluta uppruna og menningu. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að bandarísku borginni vegnaði mun betur en þeirri mexíkósku vegna þess að bandaríska kerfið tryggði eignarrétt borgaranna og að þeir hefðu áhrif á stjórn samfélagsins.

Acemoglu sagði í dag að rannsóknir þeirra sýndu fram á gildi lýðræðislegra stofnana. Lýðræðið sem slíkt væri þó ekki undralyf og mjög erfitt væri að koma því á þar sem það væri ekki fyrir.

„Þegar maður bæti kosningum við, skapar það stundum átök,“ sagði Acemoglu þegar Nóbelsnefndin náði í skottið á honum eftir að hún tilkynnti um verðlaunahafana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×