Morata og félagar hans í spænska landsliðinu urðu Evrópumeistarar í sumar. Honum leið hins vegar svo illa í aðdraganda EM að hann efaðist um að hann gæti spilað á mótinu.
„Þegar þú gengur í gegnum erfiða tíma, glímir við kvíða og þunglyndi, skiptir engu máli hvað þú gerir eða í hvaða stöðu þú ert í lífinu, þú ert með aðra manneskju inni í þér sem þú þarft að berjast við alla daga og allar nætur. Það besta fyrir mig var að yfirgefa Spán,“ sagði Morata í viðtali við El Partidazo.
Hann fékk nóg af Spáni, yfirgaf Atlético Madrid í sumar og gekk í raðir Milan.
Kökkur í hálsi og sortnaði fyrir augum
„Mér leið mjög illa. Ég hélt að ég gæti ekki reimað á mig skóna og spilað aftur. Það sem þú sérð í sjónvarpinu og á samfélagsmiðlum er oft ekki rétta myndin af raunveruleikanum. Þú þarft að vera með ákveðna ímynd því það er starf þitt. Ég var mjög slæmur, ég sprakk, um tíma gat ég ekki reimað skóna mína og þegar ég gerði það hljóp ég heim því ég fékk kökk í hálsinn og mér sortnaði fyrir augum,“ sagði Morata.
„Þremur mánuðum fyrir EM velti ég því fyrir mér hvort ég gæti spilað annan leik. Ég vissi ekki hvað var að gerast fyrir mig en þetta er mjög flókið og viðkvæmt. Á þessu augnabliki áttar þú þig á því að það sem þér líkar mest við í lífinu er líka það sem þú hatar mest. Þetta er flókið.“
Hætti að vilja fara út í búð
Morata segist hafa verið afar viðkvæmur fyrir gagnrýni og átt erfitt með að fara út meðal fólks með fjölskyldu sína.
„Mér fannst erfitt að fara út með börnin mín. Í hvert einasta skipti sem það gerðist eitthvað, fólk spurði mig eitthvað um fótboltann og eitthvað sem gerðist í síðustu leikjum. Á endanum vildi ég ekki fara út í búð. Fólk sagði svo margt við mig að mér fannst erfitt að vera með börnunum mínum,“ sagði Morata.
Hann stóð nýverið í stappi við bæjarstjórann í Corbetta eftir að hann greindi frá því að Morata væri að flytja í bæinn. Morata hætti í kjölfarið við að flytja til Corbetta.
Morata, sem er 31 árs, hefur leikið sjö leiki fyrir Milan og skorað tvö mörk. Hann hefur spilað áttatíu landsleiki fyrir Spán og skorað 36 mörk.