Sigmundur Davíð kom eins og stormsveipur inn í stjórnmálin á upphafsmánuðum hrunsins og var óvænt kjörinn formaður Framsóknarflokksins í janúar 2009. Hann byrjaði á að verja minnihlutaríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna falli en varð síðan einn harðasti andstæðingur ríkisstjórnar þeirra flokka að loknum kosningum.
Vegur hans hélt áfram að vaxa og eftir kosningar 2013 varð hann forsætisráðherra í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Eftir birtingu Panamaskjalanna hrökklaðist hann úr embætti en bauð sig aftur fram fyrir Framsókn í kosningunum 2016. Þegar kosið var á ný ári síðar yfirgaf Sigmundur Davíð Framsóknarflokkinn og stofnaði Miðflokkinn. Hinum nýstofnaða flokki gekk vel í kosningunum, hlaut 10.9 prósent atkvæða og sjö þingmenn kjörna.
Flokkurinn missti helming fylgisins í síðustu kosningum 2021, eftir Klausturmálið 2018, sem hafði mikil áhrif á stöðu Miðflokksins og Flokk fólksins. Tveir þingmanna Flokks fólksins gengu síðar í Miðflokkinn en það dugði ekki til. Flokkurinn fékk aðeins 5,4 prósent á landsvísu í kosningunum 2021 en gekk mun betur í flestum landsbyggðarkjördæmunum.
Nú hafa vindar heldur betur snúist flokknum í hag og hann mælist ítrekað næst stærsti flokkur landsins. Í síðustu könnun Maskínu mældist hann með 17 prósenta fylgi og í nýlegri könnun Gallups mældist hann með 18,7 prósent. Gallup reiknaði líka út fjölda þingmanna samkvæmt þeirra könnun og fengi Miðflokkurinn 13 þingmenn. Hann fékk þrjá þingmenn kjörna í síðustu kosningum.
Samkvæmt síðustu könnun Gallups væri aðeins hægt að mynda tveggja flokka ríkisstjórn með Samfylkingu og Miðflokki. Samfylkingin gæti myndað fjórar mismunandi þriggja flokka stjórnir án Miðflokksins og nokkrir möguleikar eru á fjögurra flokka stjórnum.
Samtalið með Heimi Má er í beinni útsendingu á Vísi og Stöð 2-Vísi klukkan 14. Þátturinn verður síðan sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 klukkan 19:05.