Halldór Garðar skoraði tuttugu stig fyrir Keflvíkinga sem unnu Álftnesinga eftir framlengingu á fimmtudaginn, 101-108. Hann var sérstaklega öflugur í framlengingunni þar sem gestirnir sigu fram úr.
„Hann kláraði þennan leik. Mér fannst hann vera frábær allan leikinn. Ég myndi fyrst og fremst líta á hann sem varnarmann en skorar alltaf 10-12 stig. En ef hann er búinn að bæta í sitt vopnabúr að hann komi óhræddur upp til að skjóta þriggja stiga skotum erum við að topp 10-15 íslenskan leikmann í deildinni,“ sagði Ómar Örn Sævarsson í Bónus Körfuboltakvöldi.
Jón Halldór Eðvaldsson hefur lengi haft miklar mætur á Halldóri Garðari.
„Ég var í stjórn Keflavíkur fyrir mörgum, mörgum árum og reyndi ítrekað að fá hann. Það er ekki út af körfuboltahæfileikum; bara karakternum. Þú getur ekki keypt þetta. Þetta er stórkostlegt eintak af manni. Hann gerir alla jákvæðari og glaðari í kringum sig. Svo er hann búinn að bæta sinn leik gríðarlega og er að mínu mati orðinn einn af bestu leikmönnum deildarinnar,“ sagði Jón Halldór.
„Það er ótrúlegt að hann hafi ekki fæðst í Keflavík,“ sagði Ómar en Jón Halldór benti þá á að Halldór Garðar væri með keflvíska konu, körfuboltakonuna Kötlu Rún Garðarsdóttur.
Innslagið úr Bónus Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.