Lífið

Heyrði varla í bón­orðinu fyrir látum

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Berglind Jónsdóttir og Halldór Arnarsson voru að trúlofa sig í Tallin.
Berglind Jónsdóttir og Halldór Arnarsson voru að trúlofa sig í Tallin. Aðsend

„Ég hef fengið að vera veislustjóri í nokkrum brúðkaupum og veislum svo ég hlakka til að fá núna að vera í hlutverki brúðarinnar,“ segir hin nýtrúlofaða Berglind Jónsdóttir. Berglind, sem starfar hjá breska sendiráðinu og sem danskennari, er búin að vera í sambandi með Halldóri Arnarssyni sálfræðingi í þrettán ár og þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um þegar hann bað hennar í Eistlandi á dögunum.

Elskar allt sem tengist köstulum

Blaðamaður ræddi við Berglindi og fékk að heyra nánar frá trúlofuninni.

„Ég var sem sagt í vinnuferð í Tallinn í Eistlandi þar sem ég hitti kollega mína sem vinna í sömu stöðu og ég í öðrum breskum sendiráðum á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum. Ég fór út á miðvikudegi og Halldór kom til mín á föstudegi. 

Við vorum að vinna að ýmsum verkefnum saman og þar sem breski sendiherrann í Tallinn elskar karókí þá enduðum við öll saman á karókístað þar sem við sendiherrann tókum dúett,“ segir Berglind brosandi og bætir við:

„Daginn eftir höfðum við Halldór ákveðið að skoða bæinn saman og fara svo út að borða um kvöldið og hann hafði stungið upp á að stoppa í mjög fallegum hallargarði á leiðinni á veitingastaðinn sem er mjög mikið fyrir mig því ég elska allt sem tengist köstulum, höllum og fallegum byggingum. 

Halldór gaf mér meira að segja einu sinni í jólagjöf ferðalag um Þýskaland þar sem eini tilgangur ferðarinnar var að keyra í gegnum landið og skoða kastala, besta ferð í heimi.“

Berglind hefur alltaf verið heilluð af köstulum.Aðsend

Sér framtíðina ekki fyrir sér öðruvísi en með honum

Þegar parið var komið í hallargarðinn var farið að dimma og þau voru ein í garðinum í smá stund.

„Halldór nýtti þá tækifærið þar sem við stóðum við upplýstan gosbrunn, fór niður á annað hnéð og tók fram hringinn og bað mín. 

Það voru bara svo mikil læti í gosbrunninum að ég heyrði varla í spurningunni en vissi auðvitað svarið, enda höfum við verið saman í þrettán ár og eigum tvær yndislegar stelpur saman og ég sé framtíðina ekki fyrir mér öðruvísi en með honum. 

Það var yndislegt að geta fagnað trúlofuninni í þessari fallegu borg sem ég mæli klárlega með að fólk heimsæki.“

Trúlofuð!Aðsend

Það eru því spennandi tímar fram undan hjá þeim hjúum.

„Nú tekur bara við brúðkaupsundirbúningur en ég hef fengið að vera veislustjóri í nokkrum brúðkaupum og veislum svo ég hlakka til að fá núna að vera í hlutverki brúðarinnar,“ segir Berglind að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×