Fótbolti

Sakaður um að öskra „Frjáls Palestína, ég vona að þið deyið“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aral Şimşir í leiknum í Serbíu.
Aral Şimşir í leiknum í Serbíu. Pedja Milosavljevic/Getty Images

Aral Şimşir, leikmaður Midtjylland í Danmörku, hefur verið sakaður um að öskra „Frjáls Palestína, ég vona að þið deyið“ í átt að leikmönnum ísraelska félagsins Maccabi Tel Aviv þegar liðin mættust í Evrópudeild karla í knattspyrnu á dögunum.

Elías Rafn Ólafsson og félagar í Midtjylland unnu 2-0 útisigur á Maccabi Tel Aviv í Evrópudeildinni á dögunum. Leikið var í Serbíu þar sem Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, vill ekki að leikir á sínum vegum fari fram í Ísrael.

Stuttu eftir að leik lauk sakaði Tel Aviv hinn 22 ára gamla Şimşir um að öskra orðin rituð hér að ofan bæði á meðan leik stóð sem og eftir að leik lauk.

Tel Aviv segir í viðtali við danska miðilinn Bold að hvorki leikmenn né forráðamenn Tel Aviv hafi sagt eitthvað sem gæti hafa leitt til þess að Şimşir, sem á ættir að rekja til Tyrklands, hafi svarað fyrir sig.

Midtjylland neitar frásögn ísraelska félagsins og segir að leikmönnum hafi lent saman eftir leik en ekki séu neinar sannanir til staðar sem staðfesti frásögn Tel Aviv. Bold reyndi að ná í Şimşir vegna málsins en án árangurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×