Enski boltinn

Óttast að Alis­son sé frá næstu vikurnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alisson fékk aftan í lærið.
Alisson fékk aftan í lærið. Jacques Feeney/Getty Images

Arne Slot, þjálfari enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool, óttast að markvörðurinn Alisson verði frá næstu vikurnar en hann fór meiddur af velli þegar liðið lagði Crystal Palace 1-0 á útivelli í dag.

Liverpool er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir sigur dagsins. Það sem meira er, liðið hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í sjö leikjum til þessa. Það gæti nú breyst þar sem Liverpool verður án hins 32 ára Brasilíumanns næstu vikurnar ef Slot hefur rétt fyrir sér.

Alisson virtist togna í læri þegar hann hreinsaði boltann frá marki sínu á 79. mínútu leiksins. Inn af bekknum kom Vítězslav Jaroš í því sem var hans fyrsti leikur fyrir félagið.

„Það er ljóst að Alisson verður líklega frá næstu vikurnar,“ sagði Slot og kvartaði í kjölfarið yfir því að Liverpool hafi spilað í Meistaradeild Evrópu á miðvikudeginum og svo spilað útileik í hádeginu á laugardag.

Caoimhin Kelleher hefur áður leyst Alisson af með góðum árangri en hann var frá vegna veikinda í dag. Reikna má þó með að Írinn standi vaktina í marki liðsins næstu vikurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×