Körfubolti

Njarð­vík leikur í IceMar-höllinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Halldór Karlsson, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, á milli bræðranna Gunnars og Teits Örlygssonar.
Halldór Karlsson, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, á milli bræðranna Gunnars og Teits Örlygssonar.

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur mun leika í IceMar-höllinni næstu þrjú árin. Frá þessu var greint á vefsíðu félagsins.

Njarðvík kvaddi á dögunum Ljónagryfjuna eftir mörg ár í því fræga húsi. Nú er komið að nýjum tímum hjá félaginu sem mun leika í nýju og glæsilegu húsi. 

„Innan örfárra daga verður nýtt og glæsilegt húsnæði tekið í notkun í Innri-Njarðvík sem verður gjörbylting á aðstöðu fyrir félagið,“ segir í tilkynningu Njarðvíkur.

Fyrirtækið IceMar er Njarðvíkingum eflaust kunnugt enda eiga bræðurnir Gunnar og Teitur Örlygsson það, sá síðarnefndi með frægari leikmönnum í sögu félagsins. 

Verður fyrirtækið helsti styrktaraðili körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur og þá mun nýtt keppnishús félagsins bera nafn fyrirtækisins.

„Gunnar og Teitur hafa ekki bara lagt sín helstu lóð á vogarskálarnar sem leikmenn hjá félaginu því síðustu ár hafa þeir einnig gengið vasklega fram sem stuðningsmenn og styrktaraðilar. Það er frábært að koma í þetta glæsilega hús og vinna áfram með þeim Örlygsbræðrum í IceMar-Höllinni,“ sagði Halldór Karlsson formaður deildarinnar.

Fyrsti heimaleikur IceMar-hallarinnar verður þann 12. október þegar Álftanes kemur í heimsókn í 2. umferð Bónus-deildar karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×