Bryndís Klara lést af sárum sínum eftir hnífstunguárás við Skúlagötu á Menningarnótt í ágúst og var jarðsett þann 13. september.
Góðgerðarfélag Verzlunarskóla Íslands stendur fyrir tónleikunum, en Bryndís Klara var á leið á sitt annað ár í skólanum þegar hún lést. Sunna Hauksdóttir formaður góðgerðarnefndar skólans segir hugmyndina að tónleikunum hafa vaknað eftir minningarathöfn í Lindarkirkju.
„Við fundum bara að okkur langaði að gera eitthvað, strax. Það var dálítið bara gefið að gera þetta fyrir þetta málefni,“ segir Sunna sem var til viðtals í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Bubbi Morthens, GDRN, Aron Can, Friðrik Dór og Páll Óskar. Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir fjölmiðlakona er kynnir á tónleikunum og Halla Tómasdóttir forseti Íslands ávarpar gesti í lok tónleikanna. Þema tónleikanna er bleikur litur, sem var í uppáhaldi hjá Bryndísi Klöru.
„Við vildum hafa þetta í anda Bryndísar Klöru. Það er allt hér í bleiku og við hvöttum fólk til að mæta í bleiku, þannig að þetta verður falleg stund,“ segir Sunna.
„Við fundum mjög mikinn samtakamátt eftir þetta. Við prófuðum bara að senda á tónlistarmenn og við fengum bara já frá öllum. Allir til í að koma að þessu.“
Hún segir að fyrstu dagana eftir fregnirnar af andláti Bryndísar hafi samnemendur hennar verið harmi slegnir.
„En ég fann um leið að það til dæmis mættu allir í bleiku, á mánudaginn eftir að þetta gerðist. Ótrúlega fallegt að finna hvað allir vildu standa saman eftir þetta,“ segir Sunna að lokum.