Fótbolti

Á met sem enginn vill

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Framherjinn hefur hvorki skorað né unnið leik á leiktíðinni.
Framherjinn hefur hvorki skorað né unnið leik á leiktíðinni. Visionhaus/Getty Images

Ben Brereton Diaz á nú met sem enginn vill í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Hann hefur leikið 20 leiki án þess að næla í einn einasta sigur.

Diaz er 25 ára gamall framherji sem spilar í dag í með Southampton eftir að hafa komið víða við. Hann hóf ferilinn hjá yngstu liðum Manchester United áður en hann fór til Stoke City og svo Nottingham Forest þar sem hann hóf meistaraflokksferil sinn.

Hann var lánaður til Blackburn Rovers sem keypti hann í kjölfarið árið 2019. Þar varhann til 2023 þegar hann hélt til Villareal á Spáni. Þar gengu hlutirnir vægast sagt ekki upp og var hann í kjölfarið lánaður til Sheffield United.

Liðið úr stálborginni kolféll úr ensku úrvalsdeildinni með aðeins 16 stig. Alls spilaði Diaz 14 deildarleiki fyrir liðið og enginn þeirra vannst. Síðasta sumar gekk hann svo í raðir nýliða Southampton. Hann hefur nú spilað sex deildarleiki fyrir Dýrlingana og viti menn, enginn þeirra hefur unnist.

Því á Diaz, sem lék fyrir yngri landslið Englands en hefur nú leikið 35 A-landsleiki fyrir Síle, nú met sem enginn vill. Hann er sá leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar sem hefur leikið flesta leiki án þess að sigra.

Um er að ræða fimm jafntefli og 15 töp. Diaz hefur því aðeins fengið fimm stig af 60 mögulegum í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×