Fyrir fram var ljóst að Magdeburg, Veszprém og Barcelona kæmu til með að berjast um titilinn á mótinu og úrslitin í riðlakeppninni hafa verið á þann veg.
Veszprém vann Zamalek frá Egyptalandi í dag, 34-27, en mótið fer fram í Kaíró. Bjarki Már Elísson skoraði þrjú mörk úr þremur skotum fyrir ungversku meistarana.
Magdeburg vann Khaleej frá Sádi-Arabíu, 35-28. Sádiarabíska liðið, sem varð Asíumeistari 2023, var þó aðeins marki undir í hálfleik og enn var staðan aðeins 23-22 þegar fjórtán mínútur voru eftir í dag.
Ómar Ingi Magnússon var næstmarkahæstur hjá þýsku meisturunum með sex mörk úr níu skotum, og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk úr þremur skotum. Isak Persson var markahæstur með níu mörk.