Ítalska félagið keypti McTominay frá Manchester United í síðasta mánuði og Skotinn hefur byrjað ágætlega á nýja staðnum.
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Napoli, fylgist vel með því hvað leikmennirnir sínir láta ofan í sig og McTominay hefur sérstaklega verið varaður við ítalska matarræðinu. Á hverjum degi fær hann með sér miða um hvað hann má og má ekki borða.
McTominay hefur meðal annars verið sagt að passa sig á ís, pizzum, pasta, osti og mjólkurvörum.
Conte breytti meðal annars matarræði Romelus Lukaku með góðum árangri þegar hann kom til Inter. Belginn átti góð ár hjá Mílanó-liðinu undir stjórn Contes og skoraði grimmt.
Napoli er í 2. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með tíu stig eftir fimm leiki, einu stigi á eftir toppliði Torino.