Erlent

Starfs­menn flýja fram­boð Robin­son eftir „svartur nas­isti“-hneykslið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Donald Trump lýsti yfir stuðningi við Robinson áður en hneykslismálið kom upp en Robinson kom hvergi við sögu þegar Trump heimsótti Norður-Karólínu á laugardaginn.
Donald Trump lýsti yfir stuðningi við Robinson áður en hneykslismálið kom upp en Robinson kom hvergi við sögu þegar Trump heimsótti Norður-Karólínu á laugardaginn. Getty/Anna Moneymaker

Flestir háttsettir starfsmenn framboðs Mark Robinson til ríkisstjóra Norður-Karólínu eru sagðir hafa sagt upp störfum í gær, eftir að CNN greindi frá því að aðstoðarríkisstjórinn hefði haft uppi óviðurkvæmileg uppmæli á klámsíðu.

Meðal þeirra sem gengu út voru aðal kosningaráðgjafinn Conrad Pogorzelski III, einn nánasti bandamaður Robinson til fjögurra ára. Pogorzelski staðfesti fregnirnar í textaskilaboðum í gær og sagði sjö aðra starfsmenn hafa hætt á sama tíma.

Aðrir sem sögðu upp eru kosningastjórinn Chris Rodriguez, fjármálastjórinn Heather Williams, og aðstoðarkosningastjórinn Jason Rizk. Þá sögðu tveir pólitískir ráðgjafar upp og framkvæmdastjórinn Patrick Riley.

Robinson sagði meðal annars á klámsíðunni Nude Africa á árunum 2008 til 2012 að hann væri „svartur nasisti“, að þrælahald væri ekki alslæmt og að hann hefði horft á konur í almenningssturtum þegar hann var táningur.

Frambjóðandinn sagði í yfirlýsingu í gær að hann kynni að meta störf þeirra sem hefðu tekið þá „erfiðu ákvörðun“ að láta af störfum og óskaði þeim velfarnaðar. Þá sagðist hann enn telja sig geta sigrað.

Repúblikanar hafa hvatt Robinson til að axla ábyrgð en þeir eru ekki síst uggandi yfir því hvaða áhrif hneykslið kann að hafa á möguleika Donald Trump á að tryggja sér kjörmenn Norður-Karólínu í forsetakosningunum, þar sem mjótt virðist verða á munum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×