Sport

Sló 24 ára gamalt met Kára Steins, aftur

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sindri Karl Sigurjónsson eftir hlaup dagsins.
Sindri Karl Sigurjónsson eftir hlaup dagsins. Samsett/Vísir/Hjartadagshlaupið

Sindri Karl Sigurjónsson, 15 ára hlaupari úr Borgarfirði, sló 24 ára gamalt aldurflokkamet Kára Steins Reynissonar í 10 kílómetra götuhlaupi í dag. Þetta er í annað sinn sem hann slær metið, en í fyrra skiptið var það ekki gilt.

Greint var frá því á Vísi í síðasta mánuði að Sindri hefði slegið Kára Steini við þegar hann fór 10 kílómetra á 35:49 mínútum í Reykjavíkurmaraþoninu. Það met var hins vegar ekki gilt þar sem hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu var ekki vottað.

Deilur hafa verið á milli Íþróttabandalags Reykjavíkur, sem heldur Reykjavíkurmaraþonið, og langhlaupanefndar Frjálsíþróttasambands Íslands, um kostnað við vottun hlaupsins. 

„Það er algjörlega ákvörðun hlaupahaldara hvort sóst er eftir vottun Frjálsíþróttasambandsins,“ sagði Friðleifur Friðleifsson, formaður langhlaupanefndar Frjálsíþróttasambands Íslands, í Bítinu á Bylgjunni um málið.

Sindri var í kjölfarið boðinn hjartanlega velkominn í Hjartadagshlaupið sem fór fram í Kópavogi í dag. Það hlaup var í ár vottað í fyrsta sinn. Um árlegt hlaup er að ræða sem er forvarnarhlaup Hjartaverndar.

Sindri þáði boðið og þrátt fyrir að hafa verið á örlítið lakari tíma en í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir tæpum mánuði síðan tókst honum, öðru sinni, að bæta tíma Kára Steins, í þetta skipti í vottuðu hlaupi og metið því hans.

Sindri kom í mark á 36 mínútum og þremur sekúndum og bætti fyrra met um þrjár sekúndur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×