Handbolti

Slæm byrjun Vals hélt á­fram í Garða­bænum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Valur hefur byrjað tímabilið í Olís-deild karla heldur illa.
Valur hefur byrjað tímabilið í Olís-deild karla heldur illa. Vísir/Anton Brink

Valur hefur ekki enn unnið leik í Olís-deild karla í handbolta. Í kvöld tapaði liðið fyrir Stjörnunni á útivelli. Þá fór karlalið Fram að fordæmi kvennaliðsins og lagði Gróttu á Seltjarnarnesi.

Valsmenn hafa ekki byrjað tímabilið vel og voru með aðeins eitt stig eftir tvær umferðir fyrir leik kvöldsins. Ekki tókst Hlíðarendapiltum að sækja fyrsta sigur tímabilsins í kvöld en Stjarnan vann þriggja marka sigur, lokatölur 28-25.

Jóhannes Björgvin, Jóel Bernburg og Starri Friðriksson voru markahæstir í liði Stjörnunnar með sex mörk hver. Þá varði Adam Thorstensen 14 skot í markinu. Í liði Vals var Ísak Gústafsson markahæstur, einnig með sex mörk, á meðan Björgvin Páll Gústavsson varði 11 skot í markinu og skoraði auk þess eitt mark.

Á Seltjarnarnesi var Fram í heimsókn og unnu gestirnir fjögurra marka sigur, lokatölur 31-35. Jón Ómar Gíslason var magnaður í liði heimamanna og skoraði 11 mörk úr aðeins 12 skotum. Þá skoraði Sæþór Atalson sex mörk úr jafn mörgum skotum. Í markinu varði Magnús Gunnar Karlsson 19 skot.

Hjá Fram var Reynir Þór Stefánsson markahæstur með níu mörk. Þar á eftir komu Arnar Snær Magnússon, Ívar Logi Styrmisson og Rúnar Kárason með fimm mörk hver. Í markinu vörðu Arnór Máni Daðason (12) og Breki Hrafn Árnason (4) samtals 16 skot.

Fram lyftir sér með sigrinum upp í 3. sæti en liðið er með fjögur stig líkt og FH, Stjarnan og Grótta. Valur er á sama tíma með 1 stig í 10. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×