Frá þessu greinir barnabarn Ásthildar, Katrín Gyða Guðjónsdóttir, í samtali við fréttastofu. Þegar fréttastofa náði tali af henni hafði Katrín ekki náð tali af ömmu sinni, sem er 83 ára gömul, en var búin að heyra hvað átti sér stað.
„Hún var nýkomin inn í hús og þá sér hún björninn út um gluggann, bara mjög stutt frá, hjá þvottasnúrunum. Það er held ég í þriggja metra fjarlægð frá húsinu,“ segir Katrín.
Hvítabjörninn hafi verið að þefa af tauinu hennar og Ásthildur horfði beint á hann.
„Þannig þegar hún hefur verið úti þá hefur ísbjörninn verið mjög nálægt henni.“

Inni í húsinu er sími og þannig náði hún að ná sambandi við dóttur sína og láta vita af birninum.
„Það er bara eins gott að hún var ekki einhversstaðar annars staðar,“ segir Katrín.
Greint var frá því fyrr í dag að vopnaðir lögreglumenn og séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar hefðu fellt björninn.
Sjá nánar: Hvítabjörninn felldur
„Björninn fannst skammt frá þeim stað sem hann sást, rétt hjá sumarhúsi sem kona var einsömul í. Við áttum því engan annan kost en að fella dýrið,“ sagði Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, í samtali við fréttastofu.

Katrín segir að faðir hennar ætli að sækja Ásthildi á morgun. Þau munu næst fara vestur í maí á næsta ári.
Hún útskýrir að öll föðurfjölskylda hennar hafi farið á Höfðaströnd í Jökulfjörðum á sumrin.
Ásthildur hafi komið þangað allt sitt líf og verið allt sumarið. Hún hafi byrjað að koma sem unglingur til frændfólks síns, Eggja-Gríms og Gunnu systur hans.
