Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hefur greint frá því að hún hafi lagt til að Brynjar taki sæti í stjórn Mannréttindastofnunar en þau tíðindi bárust um leið og spurðist að Brynjar hefði sagt af sér sem varaþingmaður.
Varaþingmennskan þvælist fyrir
Menn voru fljótir að tengja þetta tvennt saman en Brynjar segir, í stuttu samtali við Vísi, að þessir tveir punktar tengist ekki.
„Ég var fyrir einhverjum hálfum mánuði búinn að greina forseta þingsins og þingflokksformanni það að ég ætlaði að hætta í pólitík. Bréfið var bara ekki komið,“ segir Brynjar.
Brynjar segir að langt sé síðan hann lýsti því yfir að hann ætlaði að hætta í pólitík en það hafi orðið töf á því þegar hann varð aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar í dómsmálaráðuneytinu og tók þá að sér sérverkefni fyrir fjármálaráðuneytið.
„Eitthvað verða menn að gera. Ég er að leita mér að verkefnum,“ segir Brynjar. Hann telur að titillinn aðstoðarþingmaður gæti skert atvinnumöguleika sína. Þá segist Brynjar ekki líta svo á að um sé að ræða fullt starf, stjórnarseta í Mannréttindastofnun.
Er ekki á leiðinni í Miðflokkinn
Brynjar telur, sökum menntunar sinnar og reynslu, sé hann ákjósanlegur í stjórn Mannréttindastofnunar. En þarf ekki að herða upp á þessu hugtaki, þegar það nær yfir allt hlýtur það að glata merkingu sinni?
„Jú, þetta er bara orðin einhver þvæla. En það verður þá einhver umræða um það,“ segir Brynjar. Hann hefur orðið var við það á Facebook að ýmsir vinstri menn hugsi með hrolli til hans að vasast í mannréttindamálum. Brynjar tekur því hins vegar sem skýru merki um að þar sé þá verk að vinna. Og nákvæmlega hann rétti maðurinn til þess.
Þá útilokar þessi fyrrverandi varaþingmaður ekki það að hann eigi hugsanlega eftir koma aftur að pólitíkinni aftur, en það verði þó að ráðast. Og fátt fær hróflað við hollustu hans við Sjálfstæðisflokkinn
„Ég útiloka ekki að ég geti komið í pólitík síðar enda á maður ekki að útiloka neitt. Ég er ekki að fara í Miðflokkinn, ég er ekki að fara í Flokk fólksins… ég er ekki að fara í neinn annan stjórnmálaflokk. Ég er ekki að segja mig úr Sjálfstæðisflokknum. Það eru hreinar línur.“