Íslenski boltinn

Lang marka­hæstur í 2. deildinni: „Var þetta nokkurn tímann spurning?“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jakob Gunnar skoraði 25 mörk í 22 leikjum í sumar og verður leikmaður KR á næsta tímabili.
Jakob Gunnar skoraði 25 mörk í 22 leikjum í sumar og verður leikmaður KR á næsta tímabili. X / @jakobgunnarr

Völsungur er á leið upp í Lengjudeild karla og Jakob Gunnar Sigurðsson varð lang markahæsti leikmaður 2. deildarinnar í sumar. Sætið var tryggt með 8-3 sigri gegn KFA í dag, þar sem Jakob skoraði þrennu.

Völsungur hefur flogið hátt í sumar með Jakob fremstan í flokki. Fáir bjuggust við eins góðu gengi og raun bar vitni. Í spá þjálfara deildarinnar, sem Fótbolti.net stóð að fyrir tímabil, var Völsungur settur í 9. sæti.

Selfoss var löngu búið að tryggja efsta sætið áður en lokaumferðin fór fram í dag. Spennan var hins vegar mikil í baráttunni um 2. sætið.

Þróttur Vogum og Víkingur Ólafsvík unnu sína leiki og settu pressu á Völsung en Húsvíkingar stóðust það og gott betur.

Stórsigur vannst gegn KFA, 8-3, og sætið í Lengjudeildinni á næsta tímabili þar með tryggt en Þróttur og Víkingar sitja eftir með sárt ennið, einu stigi á eftir Völsungi.

Jakob Gunnar endaði með 25 mörk í 22 leikjum. Hann verður ekki áfram hjá Völsungi enda búinn að skrifa undir hjá KR og mun leika með liðinu á næsta tímabili. Á næstunni kemur í ljós hvort það verði í Bestu deildinni eða hvort hann mæti gömlu félögunum í Lengjudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×