Neytendur

Arion banki hækkar vexti hressi­lega

Árni Sæberg skrifar
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka. Vísir/Vilhelm

Útlánavextir Arion banka hækka talsvert frá og með deginum í dag. Hinir stóru viðskiptabankarnir tveir hafa ekki tilkynnt vaxtahækkun.

Í tilkynningu á vef Arion banka segir að verðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir hækki um 0,60 prósentustig og verði 4,64 prósent. Verðtryggðir fastir íbúðalánavextir hækki um 0,50 prósentustig og verði 4,74 prósent.

Það gerir hækkun upp á fimmtán prósent annars vegar og tólf prósent hins vegar.

Þá hækki verðtryggðir breytilegir kjörvextir um 0,75 prósentustig og verði 6,2 prósent. Kjörvextir eru lægstu útlánsvextir lánastofnana. Þeir eru notaðir þegar lánaáhætta er lítil eða engin að mati lánastofnunar.

Hækkun ávöxtunarkröfu um að kenna

Í tilkynningu segir að breytingar á vöxtum verðtryggra útlána séu meðal annars tilkomnar vegna hækkunar á ávöxtunarkröfu verðtryggðrar fjármögnunar. 

Breytingar á vöxtum lána sem falla undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán til neytenda taki gildi í samræmi við skilmála lánanna og tilkynningar um vaxtabreytingar.

Vaxtabreytingar útlána taki mið af fjármögnunarkostnaði bankans á hverjum tíma en einnig af öðrum þáttum, meðal annars útlánaáhættu. Fjármögnunarkostnaður bankans fylgi að hluta til stýrivöxtum Seðlabankans en einnig hafi aðrar fjármögnunarleiðir umtalsverð áhrif, svo sem innlán viðskiptavina, markaðsfjármögnun, erlend skuldabréfaútgáfa og eiginfjárgerningar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×