Körfubolti

Gamli Boston Celtics mið­herjinn segir að Jordan hafi aldrei unnið nein góð lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan eftir að Chicago Bulls vann titilinn 1997 en þá reddaði hann Robert Parish fjórða og síðasta hringnum á hans ferli.
Michael Jordan eftir að Chicago Bulls vann titilinn 1997 en þá reddaði hann Robert Parish fjórða og síðasta hringnum á hans ferli. Getty

Sá leikjahæsti í sögunni hefur sterka skoðun á því af hverju Michael Jordan geti ekki talist vera besti NBA leikmaður allra tíma.

Robert Parish þekkir NBA deildina í körfubolta og sögu hennar betur en flestir. Hann spilaði í deildinni í 21 tímabil, frá 1976 til 1997 og spilaði fleiri leiki en nokkur annar eða alls 1611 deildarleiki og 184 leiki til viðbótar í úrslitakeppni.

Á fjórtán tímabilum sínum með Boston Celtis varð hann þrisvar sinnum meistari. Fjórða titilinn vann hann hins vegar þökk sé Jordan 1997 en sá gamli var þá með Chicago Bulls í eitt tímabil.

NBA sérfræðingar og NBA áhugafólk er duglegt að rífast um hver sér besti leikmaður allra tíma. Hver sé geitin eins og flestir kalla það í dag.

Upp á síðkastið virðist valið hjá flestum standa á milli Michael Jordan og LeBron James. Parish er ekki sammála því. Burt séð frá því hvaða skoðun hann hefur James þá kemur Jordan ekki til greina að hans mati.

„Michael vann aldrei nein góð lið að mínu mati,“ sagði Parish.

„Hugsið aðeins um þetta. Þegar ég Larry og Kevin vorum upp á okkar besta þá gat hann ekki unnið okkur. Hann komst ekki í gegnum Pistons liðið fyrr en Joe Dumars og Isiah urðu gamlir,“ sagði Parish.

„Hann gat ekki unnið Lakers þegar þeir voru upp á sitt besta,“ sagði Parish.

„Þegar hann vann Phoenix þá voru þeir aðeins með einn heiðurshallarmeðlim,“ sagði Parish og bætti við:

„Ekki misskilja mig samt. Michael var frábær leikmaður. Michael var frábær á sínum tíma. En sá besti allra tíma?“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×