Lífið

Þungun stefni lífi Gomez í hættu

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Selena Gomez.
Selena Gomez. Getty/Kevin Winter

Hin víðfræga Selena Gomez, söng- og leikkona, tilkynnti að hún er ófær um það að eignast barn í forsíðuviðtali við tímaritið Vanity Fair.

Hin 32 ára Gomez sagði að hún væri nú í miðju sorgarferli eftir að hafa lært að hún gæti ekki orðið ólétt heilsu sinnar vegna. Þungun yrði til þess að hafa skaðleg áhrif á heilsu söngkonunnar. 

„Ég hef aldrei sagt þett áður en því miður get ég ekki gengið með mitt eigið barn. Ég á við ýmis heilsufarsvandamál að stríða sem myndu setja líf mitt og barnsins í hættu. Þetta er eitthvað sem ég þarf að syrgja,“ sagði hún.

Gomez greindist nýlega með sjúkdóminn lupus (rauðir úlfar) sem er ólæknandi sjálfsofnæmissjúkdómur þar sem ónæmiskerfi líkamans ræðst gegn heilbrigðum líkamsvefjum. Hægt er að halda sjúkdómnum í skefjum með lyfjameðferð. Söngkonan glímir einnig við geðhvarfasýki og hefur talað opinskátt um baráttu sína við andleg veikindi.

Gomez vonast þó til að eignast börn og segist nú íhuga það að notast við staðgöngumóður eða ættleiða. 

„Það er ekki endilega það sem ég sá fyrir mér. Ég hélt að það myndi gerast eins og það gerist fyrir alla.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×