Innherji

Á­forma lagningu nýrra sæ­strengja til að reisa gervi­greindar­gagna­ver á Ís­landi

Hörður Ægisson skrifar
Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis Data Center, en gagnaversfyrirtækið stendur að verkefninu ásamt bandaríska félaginu Modularity.
Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis Data Center, en gagnaversfyrirtækið stendur að verkefninu ásamt bandaríska félaginu Modularity. Vísir/Vilhelm

Bandaríska félagið Modularity, sem sérhæfir sig meðal annars í þróun neðansjávar fjarskipta- og gagnastrengja, og íslenska gagnaversfyrirtækið Borealis Data Center ætla í samstarf um uppbyggingu gervigreindargagnavera hér á landi. Verkefnið felur í sér lagningu á nýjum sæstrengjum sem eiga að efla verulega alþjóðlegar gagnatengingar á milli Íslands, Norður- Ameríku og Evrópu.

Í tilkynningu frá Borealis Data Center, sem rekur tvö gagnaver á Íslandi og eitt í Finnlandi, segir að með því að leggja slíkar háhraðatengingar neðansjávar verði í framhaldinu hægt að bjóða upp á gagnaversþjónustu fyrir stór verkefni á sviði gervigreindar. 

Fyrir er Ísland með þrjá fjarskiptastrengi en sá nýjasti – ÍRIS sem tengir Ísland við Dublin á Írlandi – var tekin í notkun á síðasta ári og jók þá fjarskiptaöryggi landsins um tífalt.

Verkefnið mun stuðla að því að Ísland verði einn af lykilstöðum fyrir háþróaðar gervigreindar- og upplýsingatæknilausnir á alþjóðlegum vettvangi.

Bill Barney, meðstofnandi og stjórnarformaður Modularity, segir að svalt loftslagið á Íslandi bjóði upp á skilvirka kælingu fyrir gagnaver sem dragi verulega úr orkunotkun og kolefnisfótspori slíkra verkefna. „Með því að nýta þessa einstöku kosti má byggja háþróaða gervigreindarmiðstöð á Íslandi verður fyrirmynd á heimsvísu þegar kemur að orkunýtni og sjálfbærni.“

Samstarfið er sagt hafa jákvæð áhrif á þróun stafrænnar tækni og upplýsingatækniinnviða á Íslandi. Þá muni það jafnframt skapa hátæknistörf með háa framleiðni og styrkja samkeppnishæfni Íslands á sviði stafrænnar þjónustu og efla hugverkaiðnað enn frekar sem útflutningstoð.

Bill Barney, meðstofnandi og stjórnarformaður Modularity.

„Verkefnið mun stuðla að því að Ísland verði einn af lykilstöðum fyrir háþróaðar gervigreindar- og upplýsingatæknilausnir á alþjóðlegum vettvangi og leiða til þess að íslenskur gagnaversiðnaður mun áfram stuðla að útflutningsvexti og tækniþróun á Íslandi,“ segir Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis Data Center, og einn af hluthöfum félagsins.

Franski fjárfestingasjóðurinn Vauban Infrastructure Partners eignaðist meirihluta í Borealis á árinu 2021 og fer með yfir 90 prósenta hlut.

Í viðtali við Innherja um mitt árið í fyrra kom meðal annars fram í máli Björns að það mætti bæta netsamband Íslands við útlönd.

„Við erum með lágmarkstengingar við umheiminn ef við erum að horfa á netöryggi. Það liggja þrír netstrengir til Evrópu og einn þeirra er kominn til ára sinna. Farice var byggður árið 2002 og er því 21 árs. Það er rafeindabúnaður tengdur við strengina á sjávarbotni sem knýr gagnaflutningana áfram og þessi tækjabúnaður dugar ekki í marga áratugi, það er ljóst.

Netstrengir og öryggi þeirra eru ekki einungis mikilvægir fyrir gagnaver heldur alla starfsemi sem nýtir upplýsingatækni. Það eru líka sóknarfæri í að efla netteningar á milli Evrópu og Bandaríkjanna og við sjáum tækifæri fyrir Ísland til að geti verið nýjan tengipunkt þar á milli og aukið þar með öryggi gagnaflutninga fyrir alla þessa aðila,“ sagði hann.


Tengdar fréttir

Ardian hyggst fjór­falda um­svif Ver­ne og leggja gagna­verunum til 163 milljarða

Franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian mun leggja gagnaverum Verne, sem meðal annars er með starfsemi á Íslandi, til 1,2 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði 163 milljarða króna, til að vaxa í Norður-Evrópu og fjórfalda þannig umsvifin. Eftir kaupin hefur Ardian, sem á Mílu, fjárfest fyrir jafnvirði um það bil 120 milljarða á Íslandi. „Við erum einn stærsti erlendi fjárfestir á Íslandi og höfum mikla trú á landinu,“ segir framkvæmdastjóri hjá félaginu.

Yfir­tók gagna­verið af Ís­lands­banka fyrir nærri milljarð

Borealis Data Center keypti félagið Reykjavík DC, sem starfrækir gagnaver á Korputorgi, fyrir tæplega 900 milljónir íslenskra króna síðastliðið haust af Íslandsbanka. Vegna fjárhagsvandræða hafði gagnaverið verið yfirtekið af bankanum, stærsta lánadrottni sínum, í árslok 2021 og í kjölfarið voru meðal annars um 400 milljónir af skuldum félagsins afskrifaðar samhliða fjárhagslegri endurskipulagningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×