Mikil viðbrögð hafa verið í samfélaginu undanfarna daga eftir ákall víða að um aðgerðir gegn ofbeldi ungmenna. Dómsmálaráðherra kynnti í gær nýjan aðgerðarhóp sem tók til starfa í dag og á að sporna við ofbeldi og auka forvarnarstarf meðal barna og ungmenna.
Fjölskyldu-og tónlistarhátíðinni Stíflunni sem átti að vera í Árbænum í þriðja skipti um helgina var blásin af vegna álags hjá lögreglu.
Þá kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar að fyrirtæki sem sér um öryggi á framhaldsskólaböllum muni framvegis nota málmleitartæki í gæslu.
Aukinn viðbúnaður verður á Ljósanótt þar mun meðal annars vera á ferðinni svokölluð „flakkandi félagsmiðstöð“ þar sem sýnilegur hópur félagsstarfsmanna verður ungmennum innan handar skyldi eitthvað koma upp á. Auk þess sem lögreglumaður og fulltrúar félagsmiðstöðva og bæjarins munu fara í heimsóknir í alla grunnskóla Reykjanesbæjar til að ræða við nemendur um þá stöðu sem upp er komin.
Trúi að við getum leyst úr þessu
Loks ætla háskólanemar sem halda Októberfest sem hefst á morgun ætla að auka gæslu í kringum hátíðina. Arent Torfi Jónsson Claessen er forseti Stúdentaráðs.
„Í ljósi þeirrar vitundarvakningar í samfélaginu er ákveðinn uggur í manni. Maður vill ekki standa fyrir hátíð þar sem fólk upplifir sig ekki algjörlega öruggt,“ segir Arent.
Öryggisgæsla hafi alltaf verið mikil en nú hafi ýmsu verið bætt inn.
„Gæslan er hugsuð þannig að það kemur engin inn á svæðið án þess að það sé kyrfilega leitað. Síðan er sýnileiki gæslu yfir öll hátíðarhöld. Við erum með málmleitartæki sem öryggisverðir munu nota til að skanna alla sem koma,“ segir hann.
Arent er vongóður um að með þjóðarátaki verði hægt að sporna við þeirri óheillaþróun sem hefur átt sér stað.
Ég trúi því innilega að ef við stöndum öll saman sem samfélag og leggjumst gegn þessu ofbeldi munum við geta leyst úr þessu.