Íslenski boltinn

Sjáðu Evu Rut skora af 40 metra færi yfir ólympíu­meistara

Sindri Sverrisson skrifar
Fylkiskonur eru enn með örlögin í eigin höndum þó þær sitji í fallsæti Bestu deildarinnar.
Fylkiskonur eru enn með örlögin í eigin höndum þó þær sitji í fallsæti Bestu deildarinnar. vísir/HAG

Fylkiskonur unnu torsóttan en afar mikilvægan 2-1 útisigur gegn Stjörnunni í gærkvöld og eru nú með örlögin í eigin höndum, í fallbaráttu Bestu deildar kvenna í fótbolta. Mörkin úr leiknum má nú sjá á Vísi.

Jessica Ayers kom Stjörnunni yfir í lok fyrri hálfleiks en gestirnir úr Fylki, vel studdir úr stúkunni, jöfnuðu metin með hálfótrúlegu marki. Eva Rut Ásþórsdóttir tók þá aukaspyrnu utan af kanti, af sjálfsagt yfir 40 metra færi, og boltinn fór yfir Erin McLeod og í mark Stjörnunnar.

Erin, sem er fyrrverandi landsliðsmarkvörður Kanada og varð ólympíumeistari með liðinu 2021, virkaði óörugg í úthlaupi sínu en spurning er hvort brotið hafi verið á henni. Ekkert var þó dæmt.

Sigurmark Fylkis kom svo þegar Marija Radojicic skoraði eftir fyrirgjöf frá vinstri.

Klippa: Mörk Stjörnunnar og Fylkis

Fylkir er nú með 13 stig og enn í fallsæti, en aðeins þremur stigum á eftir Tindastóli fyrir síðustu tvær umferðirnar í neðri hluta Bestu deildarinnar. Liðin mætast á Sauðárkróki á laugardaginn í hálfgerðum úrslitaleik um að halda sér í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×