Fótbolti

Arf­taki Orra Steins fundinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
German Onugkha er hann var á láni hjá Rubin Kazan árði 2022.
German Onugkha er hann var á láni hjá Rubin Kazan árði 2022. Mike Kireev/Getty Images

FC Kaupmannahöfn hefur fundið arftaka landsliðsframherjans Orra Steins Óskarssonar. Sá heitir German Onugkha og var markahæsti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á síðustu leiktíð.

Hinn tvítugi Orri Steinn var á föstudagskvöldið seldur til spænska efstu deildarfélagsins Real Sociedad fyrir metfé. Hann fetar því í fótspor Alfreðs Finnbogasonar sem lék með liðinu frá 2014 til 2016.

Onugkha er 28 ára gamall framherji sem kemur til FCK frá Vejle þar sem hann hefur verið frá 2021 þó svo að hann hafi verið lánaður til heimalandsins Rússlands og einnig Ísraels í millitíðinni.

Framherjinn er enginn smá smíð en hann er 1.93 metri á hæð. Hann var markahæsti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð með 15 mörk og hefur byrjað yfirstandandi tímabil ágætlega með þremur mörkum í fyrstu sex leikjunum.

Talið er að Onugkha kosti FCK allt í allt tvær milljónir evra eða 307 milljónir íslenskra króna. Hann skrifar undir tveggja ára samning í Kaupmannahöfn.

Þá hefur FCK einnig sótt gríska miðvörðinn Pantelis Hatzidiakos. Hann er 27 ára gamall, hefur spilað 34 A-landsleiki og kemur á láni frá Cagliari á Ítalíu út leiktíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×