Handbolti

Vin­sælir Ís­lendingar aftur valdir fyrir næsta EM

Sindri Sverrisson skrifar
Strákarnir okkar fengu frábæran stuðning í Kristianstad á HM 2023.
Strákarnir okkar fengu frábæran stuðning í Kristianstad á HM 2023. vísir/Vilhelm

Það eru enn rúmir sextán mánuðir í að EM karla í handbolta hefjist, og öll undankeppnin er eftir, en það er engu að síður orðið ljóst í hvaða riðli strákarnir okkar í íslenska landsliðinu myndu spila.

Ísland hefur spilað á öllum Evrópumótum frá og með árinu 2000 og hafnaði í 10. sætinu á mótinu í Þýskalandi í janúar síðastliðnum.

Næsta Evrópumót verður í janúar 2026 og fer það fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Leikið verður í sex riðlum og mega gestgjafarnir velja eina þjóð í hvern riðil, til að ýta undir að áhorfendafjöldi verði sem mestur.

Ísland, Færeyjar og Þýskaland fengu riðil

Ísland er ein þriggja þjóða sem valdar voru, fyrir utan gestgjafana þrjá, og mun Ísland spila í F-riðli í Kristianstad í Svíþjóð, komist liðið á mótið. Íslendingar streymdu einmitt til Kristianstad á HM 2023 þegar riðill Íslands var spilaður þar og mynduðu gríðarlega stemningu.

Auk Íslands var svo liði Þýskalands raðað í A-riðil í Herning í Danmörku, og Færeyjar settar í D-riðil í Ósló. Gestgjafarnir þrír fara svo í hina riðlana þrjá; Noregur í C-riðil í Ósló, Svíþjóð í E-riðil í Malmö og Danmörk í B-riðil í Herning.

Íslenskir stuðningsmenn virðast vinsælir eða áreiðanlegir, því Íslandi var til að mynda einnig, af gestgjöfum, úthlutað sæti í riðli í Kristianstad á HM 2023 og í München á EM í Þýskalandi í janúar.

En áður en að EM 2026 kemur þarf Ísland að klára sitt í undankeppninni sem hefst 6. nóvember þegar Ísland tekur á móti Bosníu. Í undanriðli Íslands eru einnig Grikkland og Georgía. Leiðin til Kristianstad að vera ansi greið því tvö efstu lið hvers riðils, og fjögur bestu liðin í 3. sæti í riðlunum átta, komast beint á EM.

Á vef EHF er vakin athygli á því að miðasala á leikina á EM hefjist 12. september.

Næsta stórmót Íslands er hins vegar HM í janúar þar sem riðill Íslands verður spilaður í Zagreb í Króatíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×