Fótbolti

Orri Steinn og um­boðs­maður hans á leið til Spánar í einka­þotu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Magnús Agnar og Orri Steinn á leið til Spánar.
Magnús Agnar og Orri Steinn á leið til Spánar. @FabrizioRomano

Framherjinn Orri Steinn Óskarsson og Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður hans, eru á leið til Spánar ef marka má Fabrizio Romano sem birti mynd þess efnis á samfélagsmiðlum sínum.

Fyrr í dag var greint frá því að Orri Steinn væri á leið til Real Sociedad fyrir 20 milljónir evra eða um þrjá milljarða íslenskra króna. Talið er að spænska félagið staðgreiði framherjann knáa en vanalega er svo stórar upphæðir greiddar í tveimur eða þremur greiðslum yfir ákveðinn tíma.

Nú hefur Fabrizio Romano birt mynd af Orra Steini og Magnúsi Agnari á leið til Spánar þar sem skrifa þarf undir alla pappíra áður en félagaskiptaglugginn lokar. Þá þarf Orri Steinn eflaust að gangast undir læknisskoðun.

Orri Steinn hefur skorað fimm mörk og gefið eina stoðsendingu í sex deildarleikjum fyrir FC Kaupmannahöfn á tímabilinu. Salan kemur á slæmum tíma fyrir félagið þar sem Bröndby mætir á Parken á sunnudag í leik þar sem allt er undir þó tímabilið sé rétt nýhafið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×