Upp­gjörið: Þór/KA - FH 1-0 | Sandra María heldur á­fram að fara illa með FH

Einar Kárason skrifar
Sandra María Jessen var áfram á skotskónum í dag.
Sandra María Jessen var áfram á skotskónum í dag. Vísir/Diego

Þór/KA byrjar úrslitakeppnina vel en liðið steig stórt skref í átta að þriðja sætinu með 1-0 sigur á FH á KA-vellinum í dag.

Vindasamt var á Akureyri þegar Þór/KA tók á móti FH í efri hluta Bestu deildar kvenna í dag. Fyrir leikinn voru heimastúlkur í þriðja sæti deildarinnar en FH í því fimmta. 

Fátt var um færi í upphafi leiks en Þór/KA ívið öflugri og sóttu meira en gestirnir úr Hafnarfirðinum. FH var hinsvegar fyrri til að koma boltanum í netið þegar Snædís María Jörundsdóttir skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu þegar um tuttugu og fimm mínútur voru liðnar af leiknum. 

Bríet Bragadóttir, dómari leiksins, batt snöggan enda á fögnuð gestanna þegar hún flautaði markið af og dæmdi aukaspyrnu en hún taldi brotið á Shelby Money í marki Akureyringa. Stuttu síðar fengu heimastúlkur gott færi en Hulda Ósk Jónsdóttir skaut boltanum yfir markið úr kjörstöðu inni í teig FH.

Þegar flautað var til hálfleiks var markalaust en Þór/KA heilt yfir hættulegra liðið. 

Síðari hálfleikur var ekki nema tæplega fimm mínútna gamall þegar ísinn brotnaði loks þegar Sandra María Jessen kom heimaliðinu yfir með góðu skoti úr teig. Fast skot og boltinn hafnaði í horninu fjær, óverjandi fyrir Aldísi Guðlaugsdóttur í marki FH. Skömmu fyrir markið hafði Snædís María komist í hörkufæri í teig Þórs/KA en fór illa með góða stöðu með þungri snertingu.

Gestirnir voru ekki langt frá því að jafna metin þremur mínútum eftir markið þegar Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir skaut í stöng af stuttu færi. Sandra María lét Aldísi svo vinna fyrir kaupinu þegar hún átti skot að marki úr svipuðu færi og hún skoraði úr en í þetta skiptið varði Aldís með tilþrifum.

Liðin skiptust á að sækja og hefðu fleiri mörk getað séð dagsins ljós en allt kom fyrir ekki. 1-0 sigur Þórs/KA staðreynd að 90 mínútum loknum.

Atvik leiksins:

Þó það hafi bara verið eitt mark skorað fær það ekki þennan lið heldur er það markið sem ekki var skorað. Hafnfirðingar voru vægast sagt ósáttir með dóm Bríetar og töldu hana hafa rænt sig marki, svo einfalt er það. Skalli Snædísar virkilega góður og kom það flestum í opna skjöldu þegar flautuð var aukaspyrna fyrir brot á Shelby.

Stjörnur og skúrkar:

Sandra María, eins og svo oft áður, skein í dag. Átti góðan leik úti vinstra megin og skoraði markið sem skildi liðið að. Aldís í marki FH átti einnig góðan dag þrátt fyrir að hafa fengið á sig mark en hún átti nokkrar stórar vörslur sem héldu gestunum inni í leiknum.

Snædís María mun horfa til baka á færið sem hún fékk skömmu fyrir mark Þórs/KA en skúrkurinn að mati hvítklæddra er dómari leiksins, Bríet Bragadóttir.

Dómarinn:

Bríet Bragadóttir átti í sjálfu sér ekki slæman dag heilt yfir. Einn og einn dómur sem fólk furðaði sig á, eins og gengur og gerist, en ákvörðunin að dæma mark FH af var undarleg. Það atvik þarf að skoða aftur.

Stemning og umgjörð:

Ungir aðdáendur Akureyrarliðsins trommuðu og sungu í 90 mínútur þrátt fyrir hávaðarok og gengu sáttir frá velli. Umgjörðin í heild var flott þar sem boðið var upp á veitingar og annað fyrir leik. Vallarþulur stóð sig sömuleiðis frábærlega og hélt uppi fjörinu.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira