Körfubolti

Curry fær meira en átta milljarða fyrir eitt tíma­bil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry bítur í gullverðlaunapeninginn sem hann vann með bandaríska landsliðinu á Ólympíuleikunum í París á dögunum.
Stephen Curry bítur í gullverðlaunapeninginn sem hann vann með bandaríska landsliðinu á Ólympíuleikunum í París á dögunum. Getty/Tom Weller

NBA körfuboltamaðurinn Stephen Curry hefur náð samkomulagi við Golden State Warriors um að framlengja samningi sínum um eitt ár.

Curry var með samning til sumarsins 2026 en bætir nú við 2026-27 tímabilinu.

Hann fær enga smáupphæð fyrir þetta viðbótarár eða 62,6 milljónir Bandaríkjadala. Það gerir um 8,6 milljarða í íslenskum krónum og er meira en sum atvinnumannalið í öðrum íþróttum í Bandaríkjunum borga öllum leikmönnum sínum til samans.

Með þessu kemst Curry í fámennan hóp með þeim LeBron James og Kevin Durant. Þeir eru einu NBA leikmenn sögunnar sem hafa fengið meira en fimm hundruð milljón dala í laun á ferlinum eða meira en 69 milljarða króna.

Curry fékk fjögurra ára 215,4 milljón dala samning í ágúst 2021. Hann er orðinn 36 ára gamall og verður því 39 ára þegar samningurinn rennur út eftir þessa framlengingu.

Á sínu fimmtánda tímabili í fyrra var Curry með 26,4 stig í leik og hitti úr 40,8 prósent þriggja stiga skota auk þess að gefa 5,1 stoðsendingu í leik. Hann hefur spilað allan sinn feril með Golden State Warriors.

Curry varð Ólympíumeistari í fyrsta skiptið í París á dögunum en hann átti þá stórleik í bæði undanúrslitaleiknum sem og í leiknum um gullverðlaunin.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×