Körfubolti

„Ég gæti auð­veld­lega verið dauður“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Willie Cauley-Stein í leik með ítalska félaginu Itelyum Varese í FIBA Europe Cup á síðustu leiktíð.
 Willie Cauley-Stein í leik með ítalska félaginu Itelyum Varese í FIBA Europe Cup á síðustu leiktíð. Getty/Fabrizio Carabelli

Fyrrum NBA leikmaður sagði frá miður skemmtilegri lífsreynslu sinni í nýju viðtali. Hann er þakklátur fyrir að vera enn á lífi.

Bandaríski körfuboltamaðurinn Willie Cauley-Stein var valinn sjötti í nýliðavalinu í NBA deildinni fyrir níu árum síðan. Nú er öldin allt önnur.

Cauley-Stein hefur glímt við vímuefnavandamál og sagði Athetic frá því þegar neysla hans gekk of langt.

Spilaði með Kings, Warriors og Mavericks

Cauley-Stein var valinn í NBA af Sacramento Kings árið 2015 þar sem hann spilaði í fjögur ár. Hann lék líka í eitt tímabil með Golden State Warriors og tvö með Dallas Mavericks. Cauley-Stein hefur ekki spilað í NBA frá 2022 en hefur verið að spila á Ítalíu.

Það kom að þeim tímapunkti að hann vissi að hann þyrfti á aðstoð að halda. Árið 2022 fór hann fór í 65 daga meðferð.

Mengaðar töflur

Cauley-Stein skráði sig inn á meðferðarstofnun og taldi sig vera orðinn háður percocet töflum. Þá kom í ljós að töflurnar sem hann var að taka voru ekki percocet pillur heldur pillur mengaðar með hinu stórhættulega fentanýl efni.

„Ég gæti auðveldlega verið dauður,“ sagði Willie Cauley-Stein í viðtalinu við Athletic.

„Ég er alltaf að heyra sögur af því að krakkar fari í partý, hafi aldrei neytt eiturlyfja áður, en ákveða að prófa eina percocet töflu. Það kemur í ljós að þetta var fentanýl tafla og þau deyja. Eftir eina pillu,“ sagði Cauley-Stein og hélt áfram:

Meira en hundrað töflur

„Ég var að taka inn miklu meira en hundrað töflur í margra mánuði. Þetta hefði svo auðveldlega gerið orðið örlög mín,“ sagði Cauley-Stein.

Cauley-Stein átti sitt besta tímabil með Sacramento Kings 2017-18 þegar hann skoraði 12,8 stig í leik auk þess að taka 7,0 fráköst og gefa 2,4 stoðsendingar að meðaltali.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×