Fótbolti

Lukaku mættur aftur til Ítalíu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Romelu Lukaku fór á sína fyrstu æfingu sem leikmaður Napoli í dag. 
Romelu Lukaku fór á sína fyrstu æfingu sem leikmaður Napoli í dag.  SSC NAPOLI/SSC NAPOLI via Getty Images

Belgíski framherjinn Romelu Lukaku hefur gengið frá varanlegum vistaskiptum til Napoli á Ítalíu.

Hann kemur til félagsins frá Chelsea á Englandi en þar á framherjinn langa sögu. Greint er frá því að kaupverðið séu 30 milljónir evra.

Lukaku er sagður spenntur fyrir endurfundum með Antonio Conte, sem hann spilaði undir hjá Inter Milan í tvö ár og varð Ítalíumeistari 2021. Þeir dagar voru þeir farsælustu á ferli Lukaku en hann skoraði 64 mörk á tveimur tímabilum undir stjórn Conte og gekk svo í raðir Chelsea fyrir tæpar hundrað milljónir punda.

Hann hefur ekki átt góða endurkomu til Chelsea, félagið lánaði hann aftur til Inter og svo Roma en bolaði honum endanlega burt í sumar.

Chelsea er sagt vilja kaupa Victor Osimhen frá Napoli í staðinn en mikil samkeppni er um hann.

Þá er Napoli sagt vera að ganga frá kaupum á miðjumanninum Scott McTominay frá Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×