Enski boltinn

Skipta ensku kantmennirnir?

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hvorki Sancho né Sterling hafa haft yfir miklu að brosa undanfarið.
Hvorki Sancho né Sterling hafa haft yfir miklu að brosa undanfarið. Samsett/Getty

Chelsea og Manchester United eru bæði með enskan kantmann á sínum snærum sem félögin vilja losa sig við. Breskir miðlar greina frá því að leikmannaskipti séu ekki útilokuð.

Raheem Sterling hefur ekki spilað fyrir Chelsea í upphafi leiktíðar og látið óánægju sína í ljós. Hann virðist ekki í plönum Enzo Maresca, þjálfara Lundúnaliðsins.

Maresca gæti aftur á móti verið opinn fyrir því að veita öðrum enskum kantmanni, Jadon Sancho, tækifæri í bláu treyjunni. Sancho hefur ekki átt sjö dagana sæla hjá Manchester United og lenti í miklum útistöðum við Erik ten Hag, þjálfara liðsins, á síðustu leiktíð. Hann fór á lán til Dortmund í Þýskalandi síðari hluta leiktíðar en hefur ekki tekist að brjóta sér leið inn í lið United í sumar.

Breski miðillinn Telegraph segir til skoðunar að félögin tvö framkvæmi leikmannaskipti. Að Raheem Sterling fari til United og Jadon Sancho til Chelsea.

Báðir hafa misst sæti sitt í enska landsliðinu og var hvorugur með í för enska hópsins á EM í sumar.

Sama hver áfangastaður félaganna tveggja verður þykir líklegt að þeir yfirgefi félög sín fyrir lok félagskiptagluggans á föstudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×