Handbolti

Dana Björg með fimm­tán mörk í bikar­sigri en liðið dæmt úr keppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dana Björg Guðmundsdòttir er hér til hægri í treyju númer 23. Hún fór á kostum í síðasta leik en fékk slæmar fréttir að honum loknum.
Dana Björg Guðmundsdòttir er hér til hægri í treyju númer 23. Hún fór á kostum í síðasta leik en fékk slæmar fréttir að honum loknum. @dana_bjorg

Dana Björg Guðmundsdóttir og félagar í Volda héldu að þær væru komnar áfram í norsku bikarkeppninni í handbolta eftir stórsigur en annað kom á daginn.

Volda vann 45-6 sigur á Godöy í annarri umferðinni og héldu því að þær væru komnar áfram í þriðju umferðina.

Í ljós kom að félagið þeirra hafði klúðrað sínum málum. Leikmaður sem var ekki kominn með leikheimild tók þátt í leiknum vegna mistaka forráðamanna. Godöy var því dæmdur sigur þar sem Volda notaði þennan ólöglegan leikmann.

Hin íslenska Dana Björg skoraði fimmtán mörk í leiknum en varð að sætta sig við að bikarævintýrið væri á enda þrátt fyrir 39 marka sigur.

Svolítið broslegt

„Þetta er svolítið broslegt þegar þú sérð úrslitin,“ sagði Maria Ulla, leikmaður Godöy, í samtali við NRK.

Arild Bakke, stjórnarformaður Volda, segir að félagið hefði átt að sjá þetta í tíma fyrir leikinn. Hann segir að fjöldi nýrra leikmanna hafi komið til liðsins í sumar og þeir áttuðu sig ekki á því að einn þeirra var ekki búinn að fá leikheimild.

„Ég held að ég hafi aldrei lent í svona á tuttugu árum mínum í boltanum. Þetta hefur ekki gerst áður. Þetta er aðallega leiðinlegt fyrir leikmennina okkar,“ sagði Bakke.

„Það gerist ekkert annað en að við erum úr leik í bikarnum. Við verðum að læra af þessu og fara betur yfir þessi mál hjá okkur. Okkar markmið er standa okkur vel í úrvalsdeildinni,“ sagði Bakke.

Dana Björg Guðmundsdóttir er 22 ára gömul og á íslenska foreldra eða þau Guðmund Bragason og Ingu Steingrímsdóttur. Foreldrar hennar eru bæði margfaldir Íslandsmeistarar í vaxtarrækt. Dana hefur búið nær alla tíð í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×